Samtal baksviðs við borgaraleg fermingarbörn í Hörpu í lok mars leiddi í ljós að margir bjóða upp á Mexíkósúpuna svokölluðu, sem er krydduð tómatsúpa með kjúklingi og borin fram með sýrðum rjóma og tortilluflögum.

Björn Teitsson matgæðingur segir Mexíkósúpuna heppilega fyrir svona veislur.

„Hún er auðvitað þægileg til að elda til dæmis daginn áður og svo er hægt að hita hana bara upp fyrir veisluna. Hún er jafnvel betri ef hún fær að taka sig aðeins.“

Fyrir nokkru gerði Björn úttekt fyrir Stundina á þjóðarrétti Íslendinga, og þar fékk Mexíkósúpan atkvæði sem sá réttur sem endurspeglar íslensku þjóðina.

Björn hefur farið í tvær fermingarveislur í ár og þær voru ólíkar.

„Í annarri var matarvagn og fólk fékk bara börger, mjög hressandi. Hin var svo hefðbundnari þar sem ættingjar og vinir sameinuðust um að baka og gera veisluborð.“

Björn saknaði þó eins réttar í báðum veislum:

„Í hvorugri veislu var heitur brauðréttur. Það ætti nú bara að vera skylda í fermingarveislu.“

Heitur brauðréttur og englakór

Saga Garðarsdóttir, leikkona og grínisti, gerði einmitt heilt atriði um heitan brauðrétt í verki sínu Veislu.

„Sannleikurinn er sá að ég hafði aldrei fengið heitan brauðrétt á þessum tíma. En í vinnslunni á verkinu talaði fólk svo mikið um heitan brauðrétt. Ég hafði ekki smakkað og skildi ekki trendið, þetta var eins og guð sem ég hafði aldrei hitt. En svo smakkaði ég fyrir ári síðan og ég heyrði englakór.“

Í fermingarveislum fer Saga því nú í brauðréttinn en svo einbeitir hún sér aðallega að ostum, séu þeir í boði.

Saga sá loksins ljósið þegar hún smakkaði brauðrétt í fyrsta sinn á fullorðinsaldri
fréttablaðið/anton

Kransakakan inn, bókakakan út

Svanhvít Guðmundsdóttir, hjá Tertugalleríi Myllunnar, segir að kransakakan haldi velli í ár.

„Kransakökur og marsípantertur eru mjög hátíðlegar og þær halda sínum vinsældum einmitt vegna þess, maður fær ekki marsípantertur og kransakökur bara hvenær sem er. Þær eru alltaf á boðstólum við hátíðleg tilefni.“

Bókakakan dalar aðeins í vinsældum í ár.

„Núna hafa kransakökur verið að sækja í sig veðrið og hjá okkur er staðan bara sú að við getum einfaldlega ekki bakað meira af kransakökum næstu tvær vikurnar, þær eru einfaldlega uppseldar. Bókamarsípanterturnar hafa örlítið liðið fyrir þessar vinsældir hins vegar, en fólk er líka að færa sig dálítið yfir í aðrar marsípantertur. Þannig að það mætti segja að bókastíllinn, þessi hefðbundni, sé aðeins að víkja fyrir öðrum tertustílum í marsípantertunum.“

Í Facebook-hópnum Fermingarundirbúningur og hugmyndir er nokkuð ljóst að smáréttirnir koma sterkir inn. Kjúklingaspjót eru mjög vinsæl og sömuleiðis ýmislegt góðgæti sem hægt er að fá frosið í stórum einingum.

Smáréttaþemað er einnig í sætu deildinni – makkarónur og litlar kökur hafa á sumum borðum rutt stóru marsípantertunni frá.

Svanhvít segir að hún finni fyrir þessari smáréttatísku og margir vilji hafa snittur og tapas.

„Það sem er kannski einna skemmtilegast er að brauðterturnar hafa verið að vinna rosalega á undanfarin ár og það er ekta norræn hefð sem á svo fyllilega skilið þá athygli,“ segir Svanhvít.

Í fermingarveislu Svanhvítar á sínum tíma var kransakaka, enda hefur hún alltaf verið í uppáhaldi.

„Það var líka kökuhlaðborð svo það hefur verið alls konar góðgæti sem mamma sá um að baka og ömmur mínar tvær.“

Kransakaka úr rice krispies

Svala Hjörleifsdóttir og Hörður Ágústsson halda veganfermingarveislu fyrir dóttur sína Matthildi Evu. Svala er vegan og varð það í kjölfar ákvörðunar fermingarbarnsins, en Hörður og hin dóttirin Hrafnhildur eru vegan þegar hentar.

„Þetta er nokkuð hefðbundin veisla en með vegan-veitingum. Í söltu deildinni eru það einhverjir tófúbitar og taco en í sætu deildinni erum við með Rice krispies-kransaköku og kleinuhringi frá Hérastubbi bakara í Grindavík, enda er vegan-bakkelsisúrvalið þar mikið.“

Fermingarbarnið verður í hæla­skóm, „mikil spenna að vera í hæla­skóm,“ og biður um jógamottu, förðunarspegil og skíðabúnað í fermingargjöf.

Foreldrarnir eru að skoða að vera með myndakassa í veislunni, og blaðamaður ítrekar að þá þurfi foreldrarnir að drífa sig að panta.

Myndakassar uppbókaðir

Það allra heitasta í fermingarveislum og öðrum samkomum eru svokallaðir ljósmyndakassar. Kassarnir koma veislugestum á ákveðna hreyfingu og blanda fólki saman.

Um liðna helgi voru allir ljósmyndakassar uppbókaðir, samkvæmt heimasíðum fyrirtækja sem leigja slíka út, og það sama virðist uppi á teningnum 23. apríl en þann dag eru bæði fermingarveislur, árshátíðir og fyrstu brúðkaup vorsins.