Myllur hafa verið í brennidepli undanfarið, eftir að ónýt vindmylla var sprengd með mikilli fyrirhöfn í Þykkvabæ í fyrradag. Þótt vindmyllur hafi ef til vill ekki verið áberandi í umræðunni fyrr en í seinni tíð, eru þær ekki nýtt fyrirbæri á Íslandi og eru til að mynda samofnar borgarsögunni. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur bendir hér á þær tvær þekktustu.

„Önnur var á Hólavöllum, hún kom á undan. Síðan var önnur í Bakarabrekkunni,“ segir hann. Hólavellir eru við Suðurgötu og Bakarabrekkan er í dag Bankastræti. Forgöngumaður beggja mylla var danskur kaupmaður að nafni Peter Christian Knudtson, sem byggði hús Bernhöftsbakarís á Torfunni.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur bendir, að gefnu tilefni, á tvær löngu horfnar en áður þekktar vindmyllur í Reykjavík.
Fréttablaðið/Valli

Guðjón segir að myllan hafi síðar verið nýtt sem íbúðarhús. „Rannveig í Myllunni bjó þar og var með veitingasölu,“ segir hann.

Hvað örlög myllanna í Reykavík varðar, segir Guðjón að þær hafi verið rifnar. „Vængirnir voru teknir af myllunni í Bankastræti. Hún stóð svolítið lengi þannig þangað til hún var rifin, um aldamótin 1900, til að víkja fyrir húsi.“ Sú mylla var í daglegu tali kölluð Hollenska myllan. Hólavallamylla var rifin um 1880. Myllurnar misstu notagildið þegar hætt var að flytja inn mjöl til mölunar.

Myllutæknin var þó ekki bundin við Reykjavík og kornvinnslu. Myllur voru notaðar fram eftir síðustu öld á einstaka sveitabæjum.

„Þetta voru einfaldar myllur sem framleiddu rafmagn áður en það kom í sveitirnar,“ segir Guðjón.

Hann bætir við að ennþá standi vindknúin kornmylla í Vigur. „Hún er ansi skemmtileg. Svolítið falleg og ekki mjög stór, en samt svona ekta mylla í hollenskum stíl.“