Margrét Theó­dórs­dóttir og Stefán Viðar Hauks­son létu loks draum sinn um að vinna saman rætast þegar þau opnuðu gælu­dýra tísku­vöru­verslunina Móra, sem er ekki síst á­huga­vert vegna þess að Margrét hafði alla tíð verið hrædd við hunda.

Ótti Margrétar vék hins vegar fyrir Jack Rus­sell Terri­er hundinum Pablo, sem hún segir hafa náð hunda­hræðslunni úr sér. „Ég var vön að fara í hinn enda stofunnar þegar ég var í heim­sókn hjá mág­konunum mínum sem eiga báðar hunda,“ segir Margrét og bætir við að Stefán hafi alltaf verið mikill hunda­kall.

„Ég hef alltaf verið meira fyrir ketti og bjóst því við að Pablo yrði hans hundur en svo leitar hann meira í að kúra hjá mér og við förum reglu­lega saman út að hlaupa.“

Margrét segir hug­myndina um að þau fengju sér hund hafa komið upp í kjöl­far þess að þau byrjuðu að skoða fal­legar gælu­dýra­vörur sem gætu einnig verið heimilis­prýði. „Ég stóðst ekki mátið og sló til að fá hund á heimilið,“ segir hún og hlær.

Margrét lýsir Pablo sem al­gjörri orku­bombu og gleði­sprengju sem hafi hjálpað sér að komast út úr skel hunda­hræðslunnar.

Pablo tollir vel í tískunni enda eigendurnir með puttann á púlsinum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Draumurinn um að vinna saman

Margrét segir drauminn um að vinna saman alltaf hafa blundað með þeim hjónum og þau eru ófá rauð­víns­kvöldin sem hafi farið í hug­mynda­vinnu og leit að ein­hverju sam­starfs­verk­efni sem myndi auð­velda þeim að verja meiri tíma hvort með öðru. „Við eigum svo gott skap saman. Hann er svo ró­legur og vinnu­samur en ég er miklu út­hverfari,“ upp­lýsir hún.

„Eins og hjá flestum varð minna að gera hjá okkur í kjöl­far heims­far­aldursins og við Stefán á­kváðum að kanna hvernig gælu­dýra­vöru­markaðurinn væri hérna heima og fengum góðar við­tökur frá fólkinu í kringum okkur og á­kváðum því að slá til og seldum bílinn okkar til að kaupa fyrir lág­marks­upp­hæð,“ upp­lýsir Margrét og hlær. „Við fylltum allan bíl­skúrinn af hunda­bælum, kattaklósettum og leik­föngum.“

Gæludýradót má líka vera smart.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í takti við dýratískuna

Margrét bendir í fram­haldinu á að fólk eigi það til að skammast sín fyrir bæli, matar­skálar og annað sem fylgir gælu­dýrum og reyna jafn­vel að fela þetta bak við luktar dyr þegar gesti ber að garði. Hún segist telja að þetta þurfi alls ekki að vera þannig.

„Dýrin eru partur af fjöl­skyldunni og viljum við hugsa um þau eins og börnin okkar og að þeirra hlutir fái einnig að njóta sín,“ segir hún.

Margrét segir þau Stefán reyna að vera í takti við sam­tímann með mínimalískum stíl, bæði í lita­vali og hönnun. „Flestar vörurnar eru í mjúkum litum, gráum, bleikum og grænum sem passa inn á flest heimili,“ segir hún.

Þá leggur hún einnig mikið upp úr því að velja hreint fóður og sjampó, með litlu af ilm- eða auk­efnum, fyrir Pablo sinn.

„Maður sér þetta bara svo skýrt. Einu sinni keyptum annað fóður en venju­lega sem var ekki eins hreint. Pablo varð strax and­fúll og göngu­túrinn og morgun­verkin urðu allt öðru­vísi. Ég fann að það skiptir rosa miklu máli að vera með gott fóður fyrir hann,“ segir Margrét og bætir við að henni þyki mikil vitundar­vakning hjá vera hjá fólki um líf­rænan mat fyrir dýr, rétt eins og verið hefur í kringum mann­fólkið síðast­liðin ár.

Mjúkir litir eru móðins í gæludýraríkinu um þessar mundir.
Fréttablaðið/Anton Brink