Rakel Ósk Þór­halls­dóttir, eig­andi tísku­vöru­verslunarinnar Central, leggur söfnunar­á­taki Bleiku slaufunnar lið annað árið í röð og nú með kasmírullar­húfum sem hún hannaði sjálf enda hefur starfsemi Krabbameinsfélagsins verið henni hugleikinn undanfarin ár eftir að hún komst að því að stökkbreyting BRCA-gensins er algeng í fjölskyldu hennar.

„Ég komst að þessu 2017 þegar ég hringdi í Ís­lenska erfða­greiningu og spurði hvort amma og afi hefðu verið með þessa stökk­breytingu. Þau eru dáin þannig að það var ekki per­sónu­vernd á þessu þannig að ég fékk að vita að þau hefðu verið með þetta. Þá sendi ég bara SMS á línuna, öll syst­kini mömmu og bað þau um að láta at­huga þetta fyrir okkur barna­börnin og það kom í ljós að sjö eru með BRCA.“

Rakel segir að þarna hafi komið skýring á því að þrjú syst­kina móður hennar höfðu fengið krabba­mein fyrir fimm­tugt án þess að hafa hug­mynd um stökk­breytinguna. „Mér fannst ekki annað koma til greina en að láta at­huga þetta og þau voru mjög glöð og þakk­lát.“

Sjúk­lega hlý blanda

Með ný­fengna vit­neskju um þennan á­hættu­þátt í erfðum fjöl­skyldu sinnar á­kvað Rakel að hún vildi ekki láta sitt eftir liggja til eflingar Krabba­meins­fé­laginu og fannst þá liggja beinast við að nýta þekkingu sína og reynslu úr tísku­heiminum.

„Þannig að ég hannaði trefilinn undir merkinu mínu ROYAL.B,“ segir Rakel og leggur mikla á­herslu á að hún sé þó ekki hönnuður þótt hún eigi fata­búð. „En ég er búin að vera með ást­ríðu fyrir þessu alla tíð og búin að vinna við þetta frá því ég var sau­tján ára þannig að það kom ekkert annað til greina.“

Rakel segist hafa lagt mikið upp úr gæðum og nota­gildi en húfan kostar 8.900 krónur og helmingurinn af öllum á­góða af sölu hennar, eins og trefilsins, rennur til Bleiku slaufunnar.

„Ég vildi tryggja hlýjuna með gæðum efnisins enda er ég búin að upp­lifa það með nokkrum ættingjum í krabba­meins­með­ferð að þeim var alltaf kalt. Niður­staðan varð því að trefillinn og húfan eru úr 70 prósent ull og 30 prósent kasmír. „Sem er náttúr­lega bara sjúk blanda upp á mýkt og hlý­leika og kasmírið stingur náttúr­lega ekki þannig að þetta er ekki að pirra fólk.“

Reynir alltaf að toppa sig

Rakel bendir á það aug­ljósa or­saka­sam­hengi að eftir því sem meira safnast eflist fjöl­breytt starf­semi Krabba­meins­fé­lagsins og for­varnir til að minnka líkur á krabba­meinum og segir treflinum hafa verið svo vel tekið í fyrra að færri hafi fengið hann en vildu. Hún hafi því notað tæki­færið núna og látið fram­leiða tak­markað magn af treflum með húfunum þegar hún á­kvað að endur­taka leikinn í ár.

„Ég náði yfir 1,9 milljónum í fyrra og mín heitasta ósk er alltaf að mér takist að toppa sjálfa mig þannig að ég vona og tak­mark mitt á hverju ári er að Central Iceland safni meiru fyrir slaufuna á hverju ári,“ segir Rakel sem selur húfuna og treflana í vef­verslun sinni Centra­liceland.is.