Ólöf Ása Skúladóttir, íbúi í Hvalfirði í Kjós, fann leðurblöku á planinu heima hjá sér síðdegis í gær. Hún reiknar með að kötturinn hafi komið með hana heim. „Hún er vön að koma með mýs þannig að ég tók þetta bara upp og ætlaði að henda þessu eins og hverri annarri mús en þá tók ég eftir því að þetta var alls ekki mús,“ segir Ólöf Ása.
Ólöf Ása segir sér ekki hafa brugðið þegar hún áttaði sig á því á hverju hún héldi. Henni þætti dýr áhugaverð svo hún hafi strax skoðað leðurblökuna gaumgæfilega. Þá hafi hún áður fundið ýmislegt á planinu heima en að þetta hafi verið fyrsta leðurblakan. „Ég setti hana í plast og síðan í frysti. Ég fer svo með hana til Matvælastofnunar eða Náttúrufræðistofnunar,“ segir Ólöf Ása.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir leðurblökur ekki algengar á Íslandi. Gert sé ráð fyrir að um tvær finnist á ári hverju og fólk þurfi að gæta sín á að handleika þær alls ekki. „Það er ekki alltaf ljóst hvort þær séu að bera með sér sjúkdóma líkt og hundaæði,“ segir Ester Rut.
Matvælastofnun vekur athygli á því að leðurblökur geta borið ýmsa hættulega sjúkdóma, bæði í menn og dýr. Tilkynningar um leðurblökur skal senda til viðkomandi héraðsdýralæknis Matvælastofnunar eða Náttúrufræðistofnunar Íslands.