Ólöf Ása Skúla­dóttir, íbúi í Hval­firði í Kjós, fann leður­blöku á planinu heima hjá sér síð­degis í gær. Hún reiknar með að kötturinn hafi komið með hana heim. „Hún er vön að koma með mýs þannig að ég tók þetta bara upp og ætlaði að henda þessu eins og hverri annarri mús en þá tók ég eftir því að þetta var alls ekki mús,“ segir Ólöf Ása.

Ólöf Ása segir sér ekki hafa brugðið þegar hún áttaði sig á því á hverju hún héldi. Henni þætti dýr á­huga­verð svo hún hafi strax skoðað leður­blökuna gaum­gæfi­lega. Þá hafi hún áður fundið ýmis­legt á planinu heima en að þetta hafi verið fyrsta leður­blakan. „Ég setti hana í plast og síðan í frysti. Ég fer svo með hana til Mat­væla­stofnunar eða Náttúru­fræði­stofnunar,“ segir Ólöf Ása.

Mynd/Ólöf Ása Skúladóttir

Ester Rut Unn­steins­dóttir, spen­dýra­vist­fræðingur hjá Náttúru­fræði­stofnun, segir leður­blökur ekki al­gengar á Ís­landi. Gert sé ráð fyrir að um tvær finnist á ári hverju og fólk þurfi að gæta sín á að hand­leika þær alls ekki. „Það er ekki alltaf ljóst hvort þær séu að bera með sér sjúk­dóma líkt og hunda­æði,“ segir Ester Rut.

Mat­væla­stofnun vekur at­hygli á því að leður­blökur geta borið ýmsa hættu­lega sjúk­dóma, bæði í menn og dýr. Til­kynningar um leður­blökur skal senda til við­komandi héraðs­dýra­læknis Mat­væla­stofnunar eða Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands.