Mörgum hlaupurum finnst betra að hlaupa á annað hvort hlaupabretti eða utandyra, en þrátt fyrir að þessar æfingar séu mjög svipaðar reyna þær á á ólíkan hátt og henta misvel eftir því hver markmiðin eru. Tímaritið Runner’s World fór nýlega yfir muninn á þessu tvennu og útskýrði styrkleika og veikleika þessara ólíku æfinga, en besti árangurinn fæst með því að blanda þeim saman.

Kostir þess að hlaupa úti

Með því að hlaupa úti eyðir fólk meiri orku en á bretti. Fleiri vöðvar eru virkjaðir vegna þess að fæturnir þurfa að grípa jörðina til að ýta þér áfram, á meðan hlaupabretti vinnur hluta af þeirri vinnu fyrir þig, samkvæmt styrktarþjálfaranum Rondel King.

Fólk virkjar líka fleiri vöðva vegna þess að fólk hleypur ekki bara í beina línu, heldur þarf að sneiða fram hjá vegfarendum og hoppa yfir gangstéttarbrúnir og fleira. King segir að ef fólk hleypur bara inni sé hætta á að sumir vöðvar veikist og það geti skapað meiðslahættu þegar viðkomandi fer aftur út. Það er líka hægt að verða fyrir meiðslum á brettinu af of einhæfu álagi á vöðva, liði og bein.

King segir að útihlaup henti náttúrulegum hlaupastíl betur, vegna þess að fólk er að vinna vinnuna sjálft og ekki takmarkað af brettinu á neinn hátt, en það getur valdið því að fólk taki styttri skref.

Þó að það sé erfitt að hlaupa á hörðu undirlagi eins og steypu eða malbiki getur það komið að gagni við að styrkja beinin, segir King, á meðan hlaupabretti eru hönnuð til að vernda hlauparann gegn þessu álagi og hlífa liðunum frá núningnum sem fylgir hlaupum. Þess vegna segir King að þeir sem vilja hlaupa mikið úti þurfi að styrkja fæturna vel til að fyrirbyggja álagsmeiðsli.

Hvenær á að hlaupa úti?

Það er aldrei slæmt að hlaupa úti, en ef fólk er að æfa fyrir keppni er það sérstaklega mikilvægt. Það jafnast ekkert á við að hlaupa úti þegar kemur að veðuraðstæðum og umhverfi og vindur getur til dæmis haft mikil áhrif. Þó að flest hlaupabretti bjóði upp á stillingar til að breyta álaginu og líkja eftir halla er erfitt að endurskapa breytileikann á hlaupaleið eða vegi.

Það er mikilvægt að æfa í sams konar umhverfi og á að keppa í til að gera líkamanum kleift að aðlagast þeim aðstæðum. Það getur líka komið að miklu gagni að æfa í erfiðum aðstæðum til að byggja upp andlegan styrk og reyna á búnaðinn sinn.

Þar að auki bjóða útihlaup upp á útiveru, sem þýðir D-vítamín frá sólinni og ferskt loft og það er talið sérlega gagnlegt fyrir geðheilsuna að hlaupa úti, samkvæmt Selenu Samuela, sem þjálfar fólk á hlaupabrettum. Hún segir að hlaupabretti geti verið frábær en líki aldrei eftir raunveruleikanum. Rannsóknir styðja þetta og hafa komist að þeirri niðurstöðu að útihlaup gefi fólki meiri orku og minnki spennu, reiði og þunglyndi meira en innihlaup.

Hlaupabretti bjóða upp á fullkomna stjórn á aðstæðum og hægt er að stjórna hraða, halla, hléum og endurheimt nákvæmlega. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Kostir hlaupabrettisins

Stundum er bara ekki hægt að hlaupa úti og þá koma hlaupabretti sterk inn, en það þýðir samt ekki að bara eigi að nota hlaupabretti þegar veðrið er vont. Hlaupabretti bjóða upp á fullkomna stjórn á aðstæðum og hægt er að stjórna hraða, halla, hléum og endurheimt nákvæmlega. Það er líka mun auðveldara að venjast því að hlaupa á einhverjum ákveðnum hraða þegar beltið er stöðugt að neyða þig til þess og þá verður auðveldara að halda þessum hraða í útihlaupi.

Það er líka auðveldara að taka hlaup þar sem ákveðnum hraða er haldið í nokkurn tíma á hlaupabretti en í útihlaupi, segir Samuela, og það gerir það auðveldara að æfa fyrir sérstakar aðstæður sem er kannski erfitt að endurskapa utandyra.

Til er rannsókn sem komst að þeirri niðurstöðu að með því að stilla hlaupabretti á 1% halla sé hægt að bæta upp fyrir skortinn á vindmótstöðu og beltið sem knýr fólk áfram og í annarri rannsókn var niðurstaðan sú að súrefnisþörf líkamans væri svipuð í útihlaupi og á hlaupabretti, þannig að þó að það virki erfiðara að hlaupa úti eru samt svipaðir hlutir að gerast í líkamanum.

Það getur verið gagnlegt að styrkja beinin með álaginu sem fylgir því að hlaupa á hörðu yfirborði en það er líka mjög mikilvægt að fara vel með liðina til að þeir endist lengur og hægt sé að halda áfram að hlaupa lengur, en álagsmeiðsli eru mjög algeng meðal hlaupara.

Hvenær á að nota hlaupabretti?

Hlaupabretti hafa ákveðna ókosti, það er til dæmis ekki hægt að hlaupa niður halla, sem er mikilvægur hluti af þjálfun og þau geta verið einhæfari en útihlaup. En ef þú vilt bara fá smá þolþjálfun með fram öðrum æfingum eru þau mjög hentug og duga ein og sér.

Þau eru líka góður kostur fyrir þá sem stunda venjulega útihlaup en geta það ekki af einhverjum orsökum. Þau koma líka að miklu gagni á æfingum fyrir keppni þar sem hraðinn skiptir máli. Auk þess eru þau góður kostur fyrir hlaupara sem eru að jafna sig eftir meiðsli og eru ekki alveg tilbúnir fyrir átökin sem fylgja því að hlaupa á hörðu undirlagi.