Erla hefur tekið eftir auknum gönguáhuga undanfarið og er hún ánægð með það enda hefur hún lengi mælt með og talað um ágæti þess að ganga á fjöll.

„Þessi hreyfing veitir manni svo miklu meira en aukinn styrk og úthald. Vellíðan eftir góða göngu stendur með manni í marga daga eftir á. Mjög góð þreyta,“ segir hún.

Erla er í dag leiðsögumaður og forstjóri Fjallhalla Adventures en þau bjóða upp á ýmis námskeið í göngum og útivist. Erla segir að þegar sundlaugar og líkamsræktarstöðvar lokuðust hafi fólk neyðst til að fara út að hreyfa sig og þá hafi mikill fjöldi fólks úr Reykjavík og af Suðurlandi farið í göngur með Fjallhalla.

„Það eru þó aðallega konur sem sækja í göngurnar hjá okkur og við spyrjum okkur oft: Hvar eru mennirnir,“ segir hún og hlær.

„Þetta er auðvitað mjög góð leið til að finna ástina og kynnast framtíðarmaka. Maður verður svo spjallglaður og léttur í lundu við hreyfingu undir berum himni þegar maður reynir á sig og stígur út fyrir þægindasviðið.“

Erla segir að það sé ekki spurning að Covid spili sinn þátt í auknum gönguáhuga Íslendinga og að gosið í Geldingadal hafi komið Íslendingum í form.

„Það fór af stað á mjög hentugum tíma,“ segir hún. „Við í þessum bransa höfum sannarlega þurft að bretta upp ermarnar og reynt að búa til efni sem virkar fyrir þennan markhóp. Við héldum til dæmis vetrarferðamennskunámskeið síðasta vetur og þurftum þá einmitt að skipta hópunum í tvennt, með níu manns í hverjum hóp, þegar það takmarkaðist við að tíu kæmu saman. Það gekk allt saman upp og hafa engin smit verið rakin til okkar. Það námskeið fór fram úr björtustu væntingum og var ákveðið að halda það aftur og búa til framhaldsnámskeið sem er að bókast vel í.“

Nauðsynlegt að kunna réttu tæknina

Erla segir nauðsynlegt þegar fólk stundar fjallamennsku og göngur í náttúrunni að kunna réttu tæknina og vita hvaða búnaður er bestur.

„Það þarf að finna hvað virkar fyrir hvern og einn. Fólki verður til dæmis misheitt og -kalt. Margir drífa sig af stað í göngur en fara ekki aftur því þau voru síðust eða leið ekki nógu vel. Þess vegna er mikilvægt að fara á námskeið til að veita fólki það öryggi og sjálfstraust sem þarf til að hafa virkilega gaman af þessu,“ segir hún.

„Varðandi búnað þá er ullin alltaf góður grunnur sama hversu heitt eða kalt verður. Ég var til dæmis í ullarhjólabuxum og hlýrabol allan daginn á Grænahrygg og var eiginlega of heitt. Ullarhjólabuxurnar voru að gera gott mót þegar við fórum að vaða jökulárnar. Við hverja gönguferð sem er farin lærist eitthvað nýtt, þannig að það er um að gera að drífa sig eins oft og maður kemst. Alls ekki að láta veður eða vind eða myrkrið stoppa sig, bara vera með réttan útbúnað til að láta sér líða vel. Svo lærir maður inn á sjálfan sig smám saman líka, til dæmis hvaða gönguhraði virkar og hvaða nesti hentar manni.“

Erla ráðleggur þeim sem vilja byrja að stunda útivist að drífa sig af stað. Þá sé gott að fara í skipulagða ferð eða á á námskeið.

Það er smali í hverri ferð

Erla ráðleggur þeim sem vilja byrja að stunda útivist að drífa sig af stað. Þá sé gott að fara í skipulagða ferð eða á námskeið.

„Það er sérstaklega mikilvægt að einangrast ekki í Covid ástandinu. Þú þarft ekki að eiga dýrasta búnaðinn til að láta þér líða vel. Farðu í fötin sem þú átt og farðu á Úlfarsfell, Helgafell eða jafnvel einhvers staðar á jafnsléttu eins og Heiðmörk eða í hverfinu þínu. Svo áttar þú þig á því smám saman hvaða búnað þig vantar og kaupir eina og eina græju. Það verður líka alltaf einhver að vera aftastur og það er allt í lagi því það er alltaf smali í hverri ferð sem sér til þess að allir komist heilir heim,“ segir hún og bætir við að ef fólk hefur áhuga þá bjóði Fjallhalla upp á góð námskeið fyrir byrjendur í haust, vetur og vor.

Erla hefur sjálf farið á fjölda námskeiða í útivist sem hún segist hafa lært helling af.

„Ég fór á 52 fjalla námskeiðið hjá Ferðafélagi Íslands 2012 og gerði það mig öruggari hvað búnað varðar og hvað ég get. Þá var farið í öllum veðrum og það var allt í lagi því við vorum með mjög örugga og færa fararstjóra. Ég hef líka tekið auka fjallamennskunámskeið hjá íslenskum fjallaleiðsögumönnum til að dýpka kunnáttu mína. Svo er ég útlærður gönguleiðsögumaður frá MK, en svo má alltaf á sig blómum bæta og mun ég líklega aldrei hætta að læra.“