Jódís Skúladóttir er formaður stjórnar félagsins Hinsegin Austurland, sem var stofnað 28. desember síðastliðinn. Félagið gengur út á að búa til vettvang fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þeirra og velunnara á Austurlandi og vinna að jöfnuði fyrir og stuðningi við hinsegin fólk, ásamt því að auka sýnileika þeirra. Félagið vill annars vegar opna samtal við hinsegin fólk á Austurlandi í þeirra nærumhverfi og hins vegar starfa með Samtökunum ´78 og bjóða fræðslu um málefni hinsegin fólks.

„Við höfum mótað fimm manna stjórn sem er búin að funda einu sinni. Við erum að vinna í að skipuleggja árið, en við ætlum að funda mánaðarlega á mismunandi stöðum á Austurlandi,“ segir Jódís. „Viðburðirnir okkar verða með þeim hætti að við ætlum alltaf að byrja með opið hús þar sem fólk getur komið og hitt okkur og fengið kaffi, kökur, upplýsingar og félagsskap. Svo ætlum við að hafa viðburði eftir það.

Fyrsti viðburðurinn okkar verður Pubquiz á Seyðisfirði fimmtudaginn 13. febrúar,“ segir Jódís. „Það verður í tengslum við hátíðina List í ljósi og verður auglýst nánar á Facebook-síðu félagsins. Við stefnum svo á að halda alls konar viðburði, listsýningar, kvikmyndahátíð, bókavökur og ýmislegt fleira sem hefur tengsl við hinsegin flóruna. Við viljum opna samtalið og styðja við hinsegin menningu.

Jódís segir að staða hinsegin fólks á Austurlandi sé mjög mismunandi en það sé jaðarsett og lítið talað um það. Hún segir að félagið hafi samt fengið mjög mikinn stuðning úr öllum áttum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Draumurinn er svo að geta seinna opnað skrifstofu eða félagsmiðstöð, ekki ósvipað Samtökunum ´78, til að halda utan um starfsemina,“ segir Jódís.

„Við vildum koma þessu félagi í gang og gera það eins öflugt og hægt er, þannig að þeir sem komi á eftir okkur geti tekið við góðu búi,“ útskýrir Jódís. „Það kom okkur á óvart hvað það var síðan fjölmennt á stofnfundinum. Við höfðum líka opið fyrir skráningu stofnfélaga í nokkra daga eftir fundinn og það voru yfir 50 sem skráðu sig, sem er gríðarlega mikið fyrir hinsegin félag á landsbyggðinni.“

Hefur fundið fyrir óréttlæti

Jódís er sjálf frá Egilsstöðum, en hún er fjögurra barna móðir og starfar sem lögfræðingur hjá stjórnsýslustofnuninni Austurbrú.

„Ég hef unnið svolítið að mannúðarmálum og líka mikið með börnum, en ég sérhæfði mig í loftslagsmálum og vann um tíma hjá Umhverfisstofnun. Ég brenn fyrir jafnrétti og almenn mannréttindi og tók mjög virkan þátt í starfi Samtakanna ´78 upp úr aldamótum,“ segir hún. „Það er aðallega vegna þess að í ýmsum hlutverkum sem ég hef verið í í lífinu, til dæmis sem kona, lesbía og ung móðir, hef ég fundið gríðarlega fyrir óréttlæti og ójafnvægi í samfélaginu. Bæði félagslega og ekki síst innan stjórnsýslunnar. Þó að við stöndum vissulega framarlega í þessum málefnum á Íslandi eru ýmiss konar atriði ekki í lagi og það eru aðrir hópar hinsegin fólks en hommar og lesbíur sem eru í mun lakari stöðu, t.d. transfólk og intersex fólk.

Ég vil vinna að jafnréttismálum vegna þess að mín hugsun er þessi; ef ég er ekki til staðar fyrir þá sem þurfa hjálp, hver verður þá til staðar fyrir mig þegar ég þarf hana?“ segir Jódís.

Staða hinsegin fólks misgóð

Félagið ætlar meðal annars að bjóða upp á fræðslu fyrir fyrirtæki og stofnanir.

„Ef stórt fyrirtæki er með hinsegin starfsmann er t.d. mjög mikilvægt að yfirmenn og aðrir fái fræðslu, því í þekkingarleysi lifa fordómarnir,“ segir Jódís. „Þó við upplifum sem betur fer ekki sterka fordóma á Austurlandi þá er hinsegin fólk jaðarsett og það er ekki talað um það. Fólki finnst óþægilegt að ræða þessi mál og forðast það. En við viljum vera sýnilegri og virkur hluti af samfélaginu.“

Þórhallur Jóhannsson, Marteinn Lundi Kjartansson og Natalía Ýr Jóhannsdóttir eru í stjórn með Jódísi (á myndina vantar Sigfríði Hallgrímsdóttur).

Jódís segir að staða hinsegin fólks á Austurlandi sé mjög mismunandi.

„Ég held að það séu meiri fordómar en á höfuðborgarsvæðinu og fólk forðast að ræða málefni hinsegin fólks af því að við höfum verið frekar ósýnileg,“ segir Jódís. „Það er einmanalegt ferðalag að kynnast sjálfum sér og gangast við því hver maður er. Þó einhverjir standi vel og finni mikinn stuðning eru það alls ekki allir.

Í gegnum aldirnar hefur hinsegin fólk alltaf flutt í stórborgirnar til að finna aðra sér líka. Við viljum breyta þessu og gefa hinsegin fólki þann stuðning sem það þarf heima hjá þeim, nálægt fjölskyldu þeirra og rótum,“ segir Jódís. „Ég kom til dæmis ung út úr skápnum og þá flutti ég bara til Reykjavíkur til að komast í tengsl við Samtökin ´78, því ég þekkti engan sem var hinsegin fyrir austan.

Það var fjölmennt á stofnfundi félagsins og yfir 50 skráðu sig sem stofnfélagar, sem er mjög mikið fyrir hinsegin félag á landsbyggðinni.

Í haust hóf ég undirbúning fyrir stofnun félagsins og ræddi meðal annars við krakka í menntaskóla. Þá kom það mér á óvart að komast að því að þar voru ungir hinsegin krakkar sem höfðu aldrei farið í Gleðigönguna, því það er svo dýrt að fljúga til Reykjavíkur og þau eiga ekki bíl,“ segir Jódís. „Í forréttindabubblum okkar höldum við stundum að með interneti og góðum flugsamgöngum sé þetta ekkert mál, en við stöndum misjafnlega og öryrkjar, eldri borgarar og ungmenni eiga ekki alltaf auðvelt með að sækja sér þjónustu. En hinsegin fólk er auðvitað í öllum stéttum og aldursflokkum og bæði fatlað og ófatlað. Þess vegna er það svo mikilvægt að félagið geti mætt hinsegin fólki þar sem það er statt og það er hluti af ástæðunni fyrir því að við ætlum alltaf að funda á ólíkum stöðum á Austurlandi.“

Allir velkomnir að vera með

Félagið er það fyrsta sinnar tegundar á Austurlandi, en það er til félag sem heitir Hinsegin Norðurland og það er verið að stofna hliðstætt félag á Vestfjörðum.

„Okkur langar að vera í nánu samstarfi við þessi félög og jafnvel halda þing einu sinni á ári á ólíkum stöðum á landinu til að stilla saman strengi,“ segir Jódís.

„Félagið hefur fengið mjög góðar viðtökur og við finnum mikla jákvæðni gagnvart starfinu,“ segir Jódís. „Við fundum það þegar við vorum að undirbúa stofnfundinn hvað við höfum mikinn meðbyr, fyrirtæki og stofnanir lögðu okkur lið og við fengum í raun stuðning úr öllum áttum og mikla auglýsingu og umfjöllun.

Við vonum að Austfirðingar taki á móti okkur með opnum hug, fjölmenni á viðburði félagsins og ég ítreka að það eru allir velkomnir í félagið,“ segir Jódís. „Það er fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þeirra og alla velunnara, svo allir mega taka þátt. Fólk á að vera ófeimið við að koma og hitta okkur og eiga þetta samtal.“