Fólk

Mótstöðuþjálfun dregur úr þunglyndi

Ný rannsókn frá írskum háskóla segir að mótstöðuþjálfun minnki einkenni þunglyndis. Hún bætist í hóp fjölda annarra rannsókna sem sýna að líkamsrækt sé mjög holl fyrir andlega heilsu.

Æfingar með lóð eru ein tegund mótstöðuþjálfunar sem getur dregið úr einkennum þunglyndis. NORDICPHOTOS/GETTY

Samkvæmt nýrri rannsókn frá Limerick-háskóla á Írlandi er mótstöðuþjálfun ekki bara líkamlega holl, heldur líka andlega. Í rannsókninni, sem var birt í ritrýnda geðlækningatímaritinu JAMA Psychiatry, voru teknar saman niðurstöður úr yfir 30 rannsóknum sem náðu til tæplega tvö þúsund einstaklinga.

Samkvæmt rannsókninni er mótstöðuþjálfun, eins og lyftingar og ýmsar aðrar styrktaræfingar, tengd töluverðri rénun á einkennum þunglyndis. Þessi þjálfun styrkir líka bein og hjálpar við að fyrirbyggja ýmsa líkamlega kvilla.

Brett Gordon, sem er aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að mótstöðuþjálfun lækni ekki þunglyndi, en að niðurstöðurnar séu áhugaverðar, ekki síst þar sem þessi þjálfun sé aðgengileg, ódýr og hægt sé að stunda hana heima fyrir.

Getur stutt við aðra meðferð

Gordon og samstarfsmenn hans greindu niðurstöður 33 klínískra rannsókna sem náðu til 1.877 einstaklinga og í þeim öllum voru skoðuð áhrif mótstöðuþjálfunar á einkenni þunglyndis. Niðurstöður allra rannsóknanna voru að það væri fylgni á milli styrktarþjálfunar og rénunar þunglyndiseinkenna eins og geðlægðar, áhugaleysis og lélegs sjálfsálits, alveg óháð aldri, kyni, heilsufari, æfingarútínu eða aukningu á líkamlegum styrk. Hún er því að minnsta kosti góður stuðningur við aðra þunglyndismeðferð og Gordon segir að svo virðist sem þjálfunin geri meira gagn fyrir andlega líðan eftir því sem þunglyndiseinkennin eru verri.

Þar sem rannsóknin var alfarið byggð á niðurstöðum fyrri rannsókna var samt ekki hægt að svara því hvers vegna mótstöðuþjálfun hefur jákvæð áhrif né sýna orsakasambandið.

Allar æfingar hjálpa

Gordon segir að það sé ekki hægt að nefna neina eina æfingu eða æfingarútínu sem sé best fyrir geðheilsuna og allar gerðir mótstöðuþjálfunar hjálpi. Hann leggur til að fólk fylgi leiðbeiningunum frá American College of Sports Medicine, sem mæla með því að stunda styrktarþjálfun að minnsta kosti tvo daga í viku og gera átta til tólf endurtekningar á átta til tíu ólíkum styrktaræfingum í hvert sinn.

Mótstöðuþjálfun þarf líka ekki að snúast um lyftingar á lóðum. Það er hægt að nota alls kyns teygjubönd og æfingatæki til að stunda hana.

Getur verið öflugt vopn

Það er ekki nýr sannleikur að líkamsrækt bæti andlega heilsu og því kemur niðurstaða rannsóknarinnar ekki á óvart. Aðrar rannsóknir hafa gefið til kynna að með því að auka blóðflæði til heilans geti líkamsrækt breytt uppbyggingu og virkni heilans, skapað nýjar heilafrumur og framkallað losun á boðefnum sem bæta skapið.

Þó að í þessari rannsókn hafi einungis verið könnuð áhrif styrktaræfinga hafa ýmsar rannsóknir sýnt fram á að líkamsrækt dragi úr þunglyndiseinkennum og Gordon segir að það sé enginn marktækur munur á áhrifum mótstöðuþjálfunar og þolþjálfunar á þunglyndiseinkenni.

Auðvitað eru margir flóknir þættir sem móta geðheilsu og líkamsrækt ein og sér eyðir ekki þunglyndiseinkennum. Það getur líka verið mjög erfitt fyrir þunglyndan einstakling að finna orkuna og metnaðinn til að hefja líkamsrækt. En Gordon segir að þessi samantekt sýni að mótstöðuþjálfun geti verið öflugt vopn í baráttunni gegn þunglyndi.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Lífssaga falin í prinsessuskóm

Fólk

Tískuborgin París og stíll Neymar

Kynningar

Mathöll Höfða opnar á föstudag

Auglýsing

Nýjast

Garðar kokkur brauðfæðir lávarðadeildina

335 milljóna endur­greiðsla úr ríkis­sjóði til Ó­færðar 2

Kominn tími á breytingar

Hall­grímur kláraði 60 kíló á átta vikum

Doktor.is: Normal Disorder?

Margir hugsan­lega á ein­hverfurófi sem þurfa enga hjálp

Auglýsing