Þær kalla sig Augnablikin, leirlistakonan Antonía Bergþórsdóttir og málarinn Íris María Leifsdóttir, þegar þær vinna saman að list sinni og sem slíkar hafa þær í nokkur ár sótt sér innblástur og hráefni í jökla á Íslandi og Grænlandi.

„Það er bara svo yndislegt að vera hérna og manni líður eins og maður sé heima,“ segir Antonía, en þær Íris María héldu til Grænlands fyrr í þessum mánuði með íslenskan jöklaleir í farteskinu.

Síðustu misseri hafa þær, ásamt grænlenskum listakonum, mest verið að kanna marmaraáhrif jöklaleirs landanna og mismunandi hughrif sem hann vekur og tilgangur þessarar ferðar var ekki síst að stjórna vinnusmiðju þar sem sjö grænlenskar listakonur fóru höndum um leir undan jöklum beggja landa.

„Þannig að þetta er algert æði,“ heldur Antonía áfram og bætir við að hún fái ekki betur séð en tilfinningaleg tengsl Grænlendinga og Íslendinga til náttúrunnar séu mjög lík. Auk þess að svo skemmtilega vilji til að kaldhæðnislegum húmor Grænlendinga svipi mjög til þess íslenska.

Tengingar undir jökli

„Þau eru greinilega með meiri tilfinningaleg tengsl við náttúruna en við,“ skýtur Íris María inn í, með þeim fyrirvara að náttúrunándin fari vitaskuld mikið eftir búsetu.

Vinkonurnar héldu sýningu á afrakstri vinnusmiðjunnar í Nuuk á menningarnótt Grænlendinga á laugardaginn. Yfirskrift sýningarinnar, Marmaraáhrif jökulleirs frá Íslandi og Grænlandi, er vissulega lýsandi en þó full ástæða til þess að biðja vinkonurnar um að kafa aðeins dýpra.

„Við erum í raun bara að skoða jökulleirinn og önnur jarðefni sem finnast uppi á jökli og á þessu námskeiði vorum við Íris María í rauninni líka að skoða tengingu okkar við jökulinn,“ segir Antonía.

„Við skoðum hvernig jökullinn birtist okkur,“ heldur Íris María áfram og segir þær hafa hvatt konurnar á námskeiðinu til þess að sýna í verkum sínum hvernig þær upplifi jökulinn.

„Þetta var svo fjölbreytt og gaman að sjá hvað hver og ein skapar með samblöndun íslenskra og grænlenskra jarðefna.“

Tjáning og sýn listakvennanna á leyndardóma íslensks og grænlensks jökulleirs þegar búið er að brenna hann í keramik. Mynd/Aðsend

Jarðefnin bergmála

Antonía segir að í vinnusmiðjunni hafi þær í raun verið að kanna samtal efnanna á ýmsan hátt og bergmál þess samtals hafi óneitanlega dýpkað við að listrænn bakgrunnur þeirra er ólíkur og nálgunin því þverfagleg. „Og við hvöttum nemendur til að forvitnast um nær­umhverfið og samband Íslands og Grænlands.

Við teljum að náttúruöflin geti opnað fyrir samræður og sameiginlega þætti Grænlands og Íslands og að þannig getum við með verkefninu okkar styrkt tengsl við grænlenskar listakonur.“

Antonía segist hafa sterkt á tilfinningunni að einhverjar óræðar gáttir milli landanna séu að opnast og gagnkvæmur áhugi á samstarfi sé að aukast. „Þetta er ótrúlega spennandi samvinnuverkefni enda eigum við ýmislegt sameiginlegt þótt margt sé ólíkt. Efnafræðilega, til dæmis, finnurðu elsta berg jarðar hér á Grænlandi á meðan það íslenska er með því yngsta. En svo eigum við eitthvað sameiginlegt eins og jökulleirinn.“