Leikarinn Matthew Morrison, þekktur fyrir hlutverk sitt sem Will Schuester í söngleikjaþáttunum Glee, var rekinn sem dómari úr dansþættinum So You Think You Can Dance eftir að hann sendi óviðeigandi skilaboð á keppanda.

Morrison var dómari í einni þáttaröð áður en hann var beðinn um að fara. Í yfirlýsingu sem leikarinn sendi frá sér fyrir helgi kemur fram að eitthvað hafi komið upp á sem varð til þess að hann gæti ekki dæmt heiðarlega í keppninni.

Framleiðendur hófu rannsókn eftir að keppandi leitaði til þeirra en hún segir að skilaboðin sem Morrison sendi henni hafi verið óviðeigandi og henni hafi liðið óþægilega með daðrið.
Fréttablaðið/Getty images

Orðrómur fór á kreik að hann hafi sofið hjá keppenda en því var snemma vísað á bug. Heimildarmenn US Weekly sögðu atvikið hafa verið „minni háttar“ en annars var lítið gefið upp um hvers vegna Morrison gat ekki haldið áfram sem dómari.

Nú greinir tímaritið People frá því að Morrison hafi daðrað við keppanda og sent óviðeigandi skilaboð til hennar á samfélagsmiðlum.

„Þau sváfu ekki saman en hann sendi henni daðursleg skilaboð á samfélagsmiðlum.“

Morrison var aðeins dómari í einni þáttaröð áður en hann var beðinn um að fara. Hér sést hann með Melanie Moore, sem vann keppnina árið 2011. Hún er ekki keppandinn sem um ræðir.
Fréttablaðið/Getty images
Morrison sló í gegn í þáttunum Glee þar sem hann fékk lof gagnrýnanda fyrir dans- og söngtækni sína.

„Hann var rekinn fyrir samband við keppanda sem var ekki við hæfi,“ hefur People eftir heimildarmanni innan sjónvarpsstöðvarinnar Fox, þar sem þátturinn er framleiddur.

„Þau sváfu ekki saman en hann sendi henni daðursleg skilaboð á samfélagsmiðlum.“

Að sögn People leið konunni óþægilega með athugasemdir sem hann sendi henni og ákvað því að leita til framleiðandanna. Morrison var rekinn eftir að fyrirtækið lauk rannsókn sinni á málinu.

Morrison í hlutverki Will Schuester í Glee.