Margrét Björk, eða Maggý, eins og hún er yfirleitt kölluð, kynntist ferðaþjónustu frá blautu barnsbeini. Hún er alin upp á Snæfellsnesi, þar sem foreldrar hennar voru með bændagistingu og hefur haldið sig við ferðaþjónustuna síðan. Maggý er ferðamálafræðingur og var í fyrsta útskriftarhópnum sem lauk BA-námi í ferðamálum frá Háskólanum á Hólum, en síðan þá hefur hún bætt við sig ýmiss konar menntun.

Maggý hefur unnið sem atvinnuráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi síðan árið 2008, en hún hefur einnig sinnt ýmsum aukaverkefnum sem snúast um byggðaþróun og ferðaþjónustu.

„Síðastliðið ár hef ég unnið fyrir Markaðsstofu Vesturlands sem verkefnisstjóri fyrir Áfangastaðaáætlun Vesturlands, sem var unnin undir handleiðslu Ferðamálastofu. Áfangastaðaáætlunin snýst um að meta þarfir og styrkleika ólíkra svæða og vinna sameiginlega stefnumótun varðandi framtíðarsýn, markmið og aðgerðir í ferðamálum,“ segir Maggý. „Á Vesturlandi þarf að huga að margvíslegum þáttum varðandi ferðamálin, því þar eru mjög fjölbreytt svæði sem hafa ólíkar þarfir. Undanfarna mánuði hef ég unnið að því að kynna Áfangastaðaáætlunina og innleiða verkefni tengd henni.

Þetta er mjög mikilvægt, því ferðaþjónustan hefur svo mikil og víðtæk áhrif á samfélagið,“ segir Maggý. „Hér í Borgarnesi eru til dæmis fimmtán veitingastaðir í boði einfaldlega af því að það eru svo margir sem eiga leið hér um. Fjármagnið sem ferðamenn koma með inn í samfélagið nýtist í alls kyns þjónustu og uppbyggingu sem heimamenn njóta góðs af.“

Maggý var ráðin í starfið í eitt ár. „Á þessu ári langar mig til að efla og styrkja samtal og samstarf við þjónustuaðila, sveitarfélög, íbúa og gesti, til þess að við göngum öll í takt í ferðamálum,“ segir hún. „Ég hlakka til að sinna verkefnum sem lúta að ábyrgri uppbyggingu ferðamála, ásamt því að kynna Vesturland sem eftirsóknarverðan áfangastað.“

Margt á seyði fyrir vestan

Það er nóg til að kynna. „Á Vesturlandi er margt í boði og fjölmörg verkefni og viðburðir í vinnslu. Hér er líka mjög fjölbreytt náttúra, svo fólk getur stundað útivist og notið fegurðarinnar,“ segir Maggý. „Það er alltaf að bætast í flóru gisti- og veitingastaða og hér er hægt að komast í alls kyns báts- og hestaferðir, skoða hraunhella og jökla og slaka á í heitum laugum.

Það er líka margt að gerast í menningu og listum á Vesturlandi. Hellissandur hefur verið titlaður „street art capital of Iceland“ og í Grundarfirði skreytir steinhöggvari bæinn. Í sumar verður svo meðal annars haldin stór samsýning yfir 70 listamanna sem tengjast Snæfellsnesi,“ segir Maggý. „Síðast en ekki síst eru hér góðir golfvellir og íþróttaaðstaða, góð veiði, frábær matur og mikil saga.“