„Frétt vikunnar að mínu mati er dómurinn í Rauðagerði. Stærsta sakamál síðari ára þar sem héraðsdómari skammar lögreglu fyrir að gæta ekki hlutleysis við rannsókn málsins,“ segir Birgir sem hefur undanfarin ár verið fréttahaukur á Stöð 2 en færir sig fljótlega til flugfélagsins Play þar sem hann mun sjá um almannatengsl.

„Merkilegur dómur þar sem dómarinn sýknar manninn sem ók morðingjanum til og frá vettvangi og á staðinn þar sem byssunni er kastað út í sjó,“ segir Birgir og heldur áfram:

„Það verður áhugavert að sjá hvaða niðurstöðu Landsréttur kemst að, hvort hann meti öðruvísi hlutdeild þeirra þriggja sem sökuð voru um að aðstoða við glæpinn. Og hvort það leiði til þess að Angjelin Sterkaj fái þyngri dóm,“ segir Birgir.

Þá nefnir fréttamaðurinn næst Norðvesturkjördæmi. „Í öðrum fréttum er það skýrsla lögreglunnar vegna rannsóknar á talningu í Norðvesturkjördæmi. Verður þetta mál sem eltir okkur næstu árin? Er nóg að lög hafi verið brotin til að það verði kosið aftur? Endar þetta einhvern tímann? Ætli það ekki.“