Morðgátur hafa lengi verið vinsæl afþreying og teygja sig að minnsta kosti aftur til fyrri hluta síðustu aldar þar sem áhugamannaleikhús settu á svið morðgátuleikrit fyrir áhorfendur. Viðburðirnir fóru venjulega fram í heimahúsum þar sem gestir hvoru hvattir til að klæða sig í búninga og bregða sér í hlutverk til að taka þátt í uppsetningunni.

Meðal elstu dæma um morðgátuuppsetningar voru kvöldverðarsýningarnar hjá hinum alræmda Grand Guignol-leikhóp í París í Frakklandi seint á 19. öld. Hópurinn var þekktur fyrir að beita öllum brögðum til að skilja áhorfendur sína eftir agndofa – eða þaðan af verra.

Í grein New York Times frá 1957 segir að það hafi algengt að áhorfendur hafi kastað upp eða fallið í yfirlið á meðan á sýningum Grand Guignol stóð. Í eitt skipti, á sérstaklega hrottafenginni uppsetningu, segir sagan að liðið hafi yfir mann í áhorfendahópnum svo að kallað var til húslæknisins sem var hvergi að finna. Þegar maðurinn rankaði við sér báðust starfsmenn afsökunar á því að hafa ekki fundið lækninn á svæðinu en maðurinn útskýrði daufur í dálkinn: „Ég er læknirinn!“

Krimmi í slippnum

Hótel Reykjavík Marina hefur að undanförnu tekið upp á því að halda morðgátupartí þar sem Íslendingar fá að svala krimmablætinu í glæpablöndnu andrúmslofti slippsins. Viðburðirnir hafa vakið mikla lukku og hafa kvöldin hingað til öll verið fullbókuð. Hugmyndasmiðurinn að baki hótelgátunum er Catia Andreia de Brito Pereira sem hefur sjálf tekið þátt í morðgátum í heimahúsum.

„Það er einna helst óvissan,“ svarar Catia aðspurð um hvað sé svona spennandi við morðgátur. „Fólk bókar sig í partíið og fær svo frekari upplýsingar þegar nær dregur eins og hvaða persónu það mun leika og í hvers konar fötum það á að klæðast. Þú færð líka gestalistann með lýsingu á fólkinu sem tekur þátt í gátunni. Við mælum alltaf með að fólk fari alla leið því þá fær það mest út úr upplifuninni.“

Catia segir það undir hverjum gesti komið hversu mikið þeir séu tilbúnir að bregða sér í persónuna sem þeim er úthlutað og sumir verða ansi eftirminnilegir.

„Það eru sumir sem bæta ýmsu við persónurnar út frá sínum eigin hugmyndum sem getur verið skemmtilegt. Það er svo gaman að fá að vera einhver allt önnur manneskja en maður er.“

Glæpablæti Íslendinga

Glæpasögur hafa lengi verið Íslendingum hugleiknar en sækja enn í sig veðrið eins og sjá má á þeim sturluðu vinsældum sem hlaðvörp um sönn sakamál njóta í dag.

„Það hlusta næstum allar konur á Íslandi í dag á þessi sakamálahlaðvörp!“ segir Catia hlæjandi. „Ég held við höfum öll þörf á því að fara út fyrir okkar persónu og ramma og morðgátan er svo tilvalinn vettvangur til þess.“

Áhugasamir geta kynnt sér næstu morðgátuviðburði á Facebook-síðu hótelsins en næsta gáta verður þann 7. apríl.