Mömmustrákur, barnabók Guðna Kolbeinssonar, hefur verið endurútgefin. Nú kemur hún út með myndum eftir Kristínu Bertu Guðnadóttur, dóttur höfundar.

Mömmustrákur kom út árið 1982, var endurprentuð nokkrum sinnum og hefur lengi verið ófáanleg.

Mömmustrákur fjallar um Helga, sem býr með einstæðri móður sinni og þráir að hitta föður sinn. Sagan segir frá ýmsum ævintýrum hans.

Hvað kom til að Guðni ákvað að skrifa bókina? „Ég var byrjaður að þýða barnabækur og mér datt í hug hvort ég gæti ekki skrifað eina slíka og gerði það. Ég samdi hana með upplestur í útvarp í huga og þess vegna voru allir kaflarnir jafnlangir. Svo prófaði ég hana á krökkunum mínum og sagði að þetta væri bók sem ég væri að þýða. Þeim leist mjög vel á, en þegar ég upplýsti þau um sannleikann undir lokin neituðu þau að trúa mér.“

En af hverju valdi hann þetta söguefni? „Ég hygg að það sé skárra að höfundur þekki sem best þær aðstæður sem hann setur sögupersónur sínar í. Ég var afrakstur sambands sem síðan leystist upp og fylgdi einstæðri móður minni í vistum hennar allvíða um land fyrstu fimm ár ævinnar eða rúmlega það. Þetta var vitaskuld fyrir daga helgarpabba og þess háttar, þannig að ég hitti föður minn ekki oft á bernskuárunum. Aðstæður mínar voru því um margt líkar og hjá Helga litla í sögunni. Stöku atburði sæki ég í eigin reynslu en geri þá reyndar oftast talsvert sögulegri en þeir voru í raun, aðra í reynslu annarra barna, til dæmis úr ætt konu minnar, og sumir atburðir eru að öllu leyti uppdiktaðir."

Þessi frumraun Guðna hlaut Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur. „Svo skrifaði ég aðra bók um köttinn Kela og fékk engin verðlaun og þá hætti ég þessu,“ segir Guðni og hlær.

Fallegur prentgripur

Ragnar Lár myndskreytti Mömmustrák á sínum tíma en nýja útgáfan er með myndum eftir dóttur Guðna, Kristínu Bertu. „Bókin seldist upp og alltof mörg barnabörn mín áttu hana ekki. Ég ætlaði að gefa hana út sjálfur og spurði Jónas Sigurgeirsson hjá Bókafélaginu ráða og honum fannst einfaldast að gefa hana út fyrir mig. Mér finnst gaman að fá hana gefna út aftur. Hún er fallegur prentgripur. Björn H. Jónsson, sem braut hana um og hannaði kápu og útlit, er snillingur,“ segir Guðni.

Sögur um pabba

Kristín Berta segist muna vel eftir því þegar faðir hennar las söguna fyrir þau systkinin á sínum tíma. „Ég hef lesið hana margoft síðan. Þegar ég var unglingur áttaði ég mig á því að þarna voru alls konar sögur um pabba. Hann hafði sagt okkur frá æsku sinni og ýmislegt sem gerist þarna er hans saga í bland við skáldskapinn. Þessi bók hefur alltaf átt sinn stað í hjörtum okkar systkinanna.“

Hún segir að það hafi verið skemmtilegt verk að gera myndirnar í bókina. „Pabbi sagði mér að hann hefði í hyggju að gefa hana út þegar hann yrði 75 ára. Ég mála en er ekki mikill teiknari og sagði honum að ég kynni ekki að teikna fólk. Hann sagði að ég skyldi bara teikna það sem ég vildi. Fyrsta myndin sem ég gerði var af silungi og hann sagði: Hann er svolítið eins og lax. Þá leiðrétti ég það bara strax fyrir veiðimanninn. Svo kom þetta allt saman og gekk vel.“

Gamall glæpur

Nú er þessi vinsæla en lengi ófáanlega bók komin út að nýju. Guðni ljóstrar um leið upp um gamlan glæp: „Eiginmaður Kristínar Bertu, tengdasonur minn, viðurkenndi þegar ég hafði þekkt hann um hríð, að hann hefði á sínum yngri árum „stolið“ Mömmustrák af Amtsbókasafninu á Akureyri þar sem hann hafði gleymt að skila bókinni. Hann reyndi síðan að fela glæpinn með því að klippa bókasafnsmerkið af kápunni. Þetta hefur vakið nokkra kátínu í fjölskyldunni.“