Tónlistarmaðurinn Ingvi Rafn ólst upp í Kársnesinu í vesturbæ Kópavogs. Hann segist alla tíð hafa verið að sýsla við tónlist þótt það hafi ekki endilega verið planið að verða raftónlistarpródúser.

„Ég var í Kársnesskóla sem krakki og þar var kórskylda frá 4.– 7. bekkjar. Eftir á að hyggja er ég mjög þakklátur fyrir það. Þórunn Björnsdóttir sá lengi vel um kórastarfið í Kársnesskóla, í um 40 ár, og kann ég henni miklar þakkir fyrir, hún var mjög hvetjandi og fljót að sjá að við vorum nokkrir krakkar í árganginum sem vorum farnir að glamra á hljóðfæri og semja tónlist.

Hún gekk til skólastjórans og krafðist þess að fá styrk til að kaupa rafmagnsgítar, rafbassa, trommusett og hljóðnema. Hún henti upp dótinu fyrir okkur og gaf okkur lyklavöldin að tónmenntastofunni, svo við gátum æft þegar við vildum,“ segir Ingvi.

Þakklátur foreldrunum

Samhliða hljómsveitabröltinu á barnsaldri lærði Ingvi á klassískan kontrabassa.

„Það var mikið húllumhæ á heimilinu þegar ég kom heim af hljóðfærakynningu skólans og sagðist ætla að læra á kontrabassa. En það þýddi náttúrulega endalaust skutl fyrir mömmu og pabba með kontrabassa í skottinu,“ segir Ingvi og bætir við hvað hann sé einstaklega þakklátur foreldrum sínum fyrir stuðninginn í gegnum árin.

„Það er fyrst og fremst einni manneskju að þakka að ég hætti aldrei í tónlistarnámi, Aðalheiði móður minni. Það er kannski smá klisja en dagsatt. Ég var ekki alltaf duglegur að æfa mig heima en hún var alltaf tilbúin að taka slaginn, á hverju einasta ári, og telja mig á að taka eitt ár í viðbót. Ég bara skil ekki hvernig henni tókst þetta, en ég er þakklátur þessari miklu þrautseigju hennar,“ segir Ingvi og brosir.

Stilla úr Blow Out.

Iron Maiden og Vivaldi

Hann segir æskuna litaða af tónlistinni. Kóræfingar, kontrabassatímar og hljómsveitaræfingar.

„Ég var í unglingahljómsveitinni minni Magnum, en hún á enn stóran stað í hjarta mínu. Maður var þá kannski að spila Vivaldi með Strengjasveit Kópavogs undir stjórn Unnar Pálsdóttur og Iron Maiden með Magnum síðar um kvöldið,“ segi Ingvi.

Hann hefur hingað til alltaf spilað í hljómsveitum og dirb er í raun hans fyrsta einstaklingsverkefni.

„Leiðin að minni fyrstu sólóútgáfu hefur tekið langan tíma en þó hefur ferlið og þróunin verið nokkuð náttúruleg. Ég byrjaði að fikta við tölvutónlist í kringum 2013 en var þá enn fókuseraður á að vera bassaleikari. Svo er það eitt sumarkvöld 2015 að grunnurinn að laginu Blow Out verður til. Ég man að það var svolítið sérstök og óskiljanleg tilfinning, en í senn svo góð,“ segir Ingvi.

Þungavigtarlið

Í janúar fyrir ári fór Ingvi svo að leita að fólki til að vinna með.

„Ég átti frábæran fund með Eðvarði Egilssyni og landaði honum til að taka upp söng með mér. Hann er náttúrulega þungavigtar tónlistarmaður.“

Ingvi er í hljómsveitinni Oyama, en í henni spilar hann á bassa.

„Við vorum að hita upp fyrir tónlistarkonuna MSEA í Iðnó. Röddin hennar heillaði mig alveg upp úr skónum og ég spurði hana eftir tónleikana hvort ég mætti senda á hana einn grunn til að hlusta á. Henni leist vel á og kom svo í stúdíóið „Sprungu“ til okkar Edda og skilaði af sér alvöru frammistöðu,“ segir Ingvi.

Framtíðin er björt og Ingvi ætlar að halda ótrauður áfram að skapa tónlist og gefa út.

„Ég er með nokkur lög klár á lager og ætla að lauma þeim út hægt og rólega yfir árið. Ber þar helst að nefna að mér tókst að vekja Köttinn úr dvala, Kött Grá Pjé, og svo kom hún Guðrún Ýr, GDRN, og söng inn á lag hjá mér. Katerina Blautova skapaði svo myndheiminn í kringum nýja lagið, hún á hann skuldlaust og ég er virkilega ánægður með hennar framlag til verkefnisins.“

Blow Out með dirb ásamt MSEA er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum. Myndbandið við lagið er frumsýnt í dag á vef Fréttablaðsins.