Sænska söng­kon­an Molly Sandén, sem Húsvíkingar og raunar allir landsmenn hafa tekið miklu ástfóstri við, hefur birt tvö myndbönd frá ferð sinni til Húsavíkur.

Eins og kunnugt er syng­ur Molly lagið Húsa­vík – My Home Town í Netflixmynd Wills Ferrel um Eurovison-keppendur frá Húsavík, en erindi Mollýjar til bæjarins var að taka upp mynd­band fyr­ir Óskar­sverðlauna­hátíðina.

Grét af hrifningu

Í myndbandi sem birtist í dag á Youtuberás Mollyjar, má sjá hana á ferðum í bæinn, bæði á hótelherbergi sínu þar sem hún dvaldi í sóttkví, í kirkjunni og í félagskap stúlknakórsins. Hún lýsir meðal annars móttökunum sem hún fékk í bænum og stemningunni og segir grátandi frá:

„Það er svo fallegt að sjá þetta þegar maður er inn í hringiðunni miðri. Ég er bara svo hræð yfir þessu, þetta er svo fallegt,“ segir Molly í myndbandinu, sem tekið er upp á Húsavík, áður en atriðið sjálft sem sýnt var á Óskarnum var tekið upp.

Hún tekur sem dæmi að skólinn gefi krökkunum frí daginn eftir Óskarsverðlaunahátíðina. „Aldrei hefur Huddinge gert það fyrir mig," segir Molly um sinn sænska smábæ í myndbandinu og er augljóslega hrifin af Húsavík og bæjarandanum.

„Að ég hafi fengið tækifæri til að taka þátt í þessu... ég verð að syngja mitt allra besta,“ bætir hún við.

Molly á íslenskuæfingu: „Hús­a­vik vith Skja­ol-Vant­a“

Fyrra myndbandið er tekið upp á leið Mollýjar til Húsavíkur en flugferðina nýtir hún meðal annars til að æfa og fullkomna betur íslenskan framburð þeirra setninga í laginu Husavik, sem eru á íslensku. Meðar þeirra er framburður á orðinu ‚heimabærinn minn‘, setningunni „vera með þér“ og síðast enn ekki síst örnefninu Skjálfanda sem í myndinni er borið frarm ‚Skalfara‘ en kom mun betur út hjá Molly í atriðinu sem flutt var á Óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudagskvöld.

Því er óhætt að fullyrða að æfingar Mollyar hafi skilað sér.