„Mér finnst mjög gaman að klæða mig í falleg föt og finnst mikilvægt að þau séu úr góðum efnum. Ég held að mamma hafi þar haft áhrif á mig, því þegar við systkinin vorum yngri vildi mamma alls ekki að okkur væru gefin föt úr gerviefnum. Ég hef því lært að elska falleg föt og góð efni frá unga aldri. Þegar ég kaupi föt sæki ég í notað, því hér áður fyrr voru flíkur almennt úr betri efnum. Það getur verið vandi að finna ný föt í dag úr góðum efnum og oftast eru þau mjög dýr,“ segir Ragnheiður Harpa.

„Verslunin What Magna Wore á Freyjugötunni er ein af uppáhalds second hand-búðunum mínum. Ég elska að gramsa þar og kaupa mér eitthvað fallegt. Magna var hjúkrunarkona og dáleiðandi en líklega þekktust fyrir að vera rosaleg fatakona. Það hafa meira að segja verið gefnar út bækur um fötin hennar. Hún er líka með vinnustofu í búðinni þar sem hún skapar ýmislegt fallegt.

Amma mín laumar líka til mín fallegum flíkum hér og þar en hún er kannski einn af mínum helstu fatagúrúum. Svo finnst mér æðislegt að fara í Hringekjuna í Borgartúni en þar eru margar flottar konur að selja svo falleg föt af sér. Það er líka mjög margt spennandi að gerast í íslenskri fatahönnun og finnst mér skemmtilegt að fylgjast með því.“

Ullin ásamt silkinu er það efni sem Ragnheiður Harpa heldur mest upp á. Hún hefur líka yndi af fallegum kápum og útiflíkum og á veturna eru þær aðalflíkurnar og fá að skína skært.

Elskar að klæða mömmubumbu

Ragnheiður Harpa segir fatastíl sinn hafa breyst töluvert eftir að hún varð móðir, en hún á tvö ung börn með maka sínum. „Í dag snýst fatastíllinn minn um gæði og föt sem þarf ekki að klæða upp heldur verða strax falleg. Það hafa líka orðið breytingar hjá mér í því hvernig ég klæði líkamann. Áður en ég eignaðist börn var ég alltaf tággrönn og þurfti ekki að pæla jafn mikið. Núna hugsa ég meira um hvernig ég geti klætt þessa fallegu mömmubumbu sem mér þykir svo óskaplega vænt um.

Ég klæðist mikið silkiskyrtum og flauelspilsum. Núna er ég til dæmis í silkibuxum frá merkinu Silk Basics sem systir mín Rakel Mjöll stofnaði í Covid og hannar undir. Ég er mikið í fötum frá henni og tek eftir því að ég sæki meira í einlitar flíkur heldur en mynstraðar. Það auðveldar mér að para saman flíkur og láta þær vinna saman á ýmsan hátt. Þetta er hæfileg blanda af praktík og fegurð, og þó maður sé nú orðið ætíð með barn á arminum, kann ég vel að meta að vera í einhverju fallegu.“

Ragnheiður Harpa er mjög hrifin af silki og notar mikið úr Silk Basics-línunni sem systir hennar hannar. Þá er hún hrifin af einlitum fötum sem henni þykir gaman að para saman á ólíkan hátt.

Ætli það kjarni ekki svolítið stílinn minn. Fötin mín eru einföld, falleg, praktísk, úr góðum efnum og gætu mörg hver allt eins verið náttföt.

Föt og vellíðan

„Ég elska ull og silki, en silkið hefur þann undraverða eiginleika að vera hlýtt þegar það er kalt og kælandi þegar það er heitt. Að mínu mati eru föt hluti af tjáningu mannsins og spila stórt hlutverk í því að láta þér líða vel. Stórskáldið Sigurður Pálsson sagðist alltaf hafa farið í föt á morgnana, jafnvel þótt hann væri veikur, því það skipti svo miklu máli að vera í fötum sem manni liði vel í og þætti falleg.

Ég á auðvitað líka fallega kjóla sem ég elska að klæða mig í fyrir ýmis tilefni og viðburði. Flestir eru líka einlitir og margir koma frá verslun Mögnu. Einnig nota ég mikið silkikjólana frá Silk Basics – en þá er hægt að nota jafnt á balli og sem náttföt. Ætli það kjarni ekki svolítið stílinn minn. Fötin mín eru einföld, falleg, praktísk, úr góðum efnum og gætu mörg hver allt eins verið náttföt,“ segir Ragnheiður Harpa og hlær. „Svo elska ég fallegar kápur og fallegar húfur, en það er oftast aðalflíkin manns á veturna. Ég er mjög mikið úti á gangi með barnavagninn og elska að klæða mig upp í fallegar útiflíkur.“

Ég lærði að skrifa seint og þegar ég kom heim til Íslands kom ég sem gestur inn í móðurmálið. Það er í raun mjög skapandi staður að vera á og það hefur reynst mér vel að búa yfir þessu gestsauga.

Skapandi staður til að vera á

Ragnheiður Harpa segir skrifin ávallt hafa verið ákveðna miðju í sinni sköpun, hvort sem það er í ritlistarmiðlinum, leikhúsinu eða öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. „Öll list sprettur upp af sama stað og svo kemur að því að verkið sjálft ákveður hvaða form það vill taka á sig. Ég las mikið sem barn og það var líka mikið lesið fyrir mig og ég kláraði snemma allar ævintýrasögurnar á bókasafninu. Við systkinin fjögur vorum líka dugleg við að búa til leikrit og sögur.

Ég ólst upp í Bandaríkjunum í spænskumælandi fylki og er enn í dag nokkuð ringluð í tungumálunum. Ég lærði að skrifa seint og þegar ég kom heim til Íslands kom ég sem gestur inn í móðurmálið. Það er í raun mjög skapandi staður að vera á og það hefur reynst mér vel að búa yfir þessu gestsauga.

Þegar ég var tvítug fór ég í sviðslistanám og eftir það fór ég í ritlistina og fann þar hópinn minn og samhljóminn. Skrifin hafa alltaf verið miðja fyrir mig og ljóðið verið leið fyrir mig til þess að finna út hvað ég er að gera og hvers vegna.

Undanfarið hef ég mest verið að skrifa en það tengist því að ég er með tvö lítil börn og tímarammanum sem það veitir mér. Ég fæ glefsur af tíma hér og þar til að vera með sjálfri mér sem ég nýti til að skapa og þá getur verið erfitt að skipuleggja til dæmis leikhús með öðru fólki. En það er hægt að skrifa. Það er viðráðanlegur miðill sem hægt er að leggja frá sér og taka upp aftur þegar tími gefst.“

Ragnheiður Harpa á dágott safn af fallegum ullarkápum og húfum sem gera henni kleift að klæða kuldann af sér á einstaklega glæsilegan máta.

Ég fann það mjög sterkt þegar ég var ólétt að ég væri dýr. Mér fannst ég á vissan hátt vera að stíga út úr mannleikanum og verða hluti af náttúrunni.

Gróðurinn í manneskjunni

Ragnheiður Harpa gaf út ljóðabókina Urðarfléttu í síðustu viku. Bókin inniheldur prósatexta sem fjalla allir um manneskjuna og náttúrulegt eðli hennar. „Ég er að æfa mig í að segja frá henni enda er ég enn þá að kynnast henni sjálf. Margir textar í bókinni fjalla um það að stíga inn í eða út úr foreldrahlutverkinu og að finna þannig fyrir ættboganum aftur í ættir, að finnast maður vera hluti af einhverju stærra. Ég fann það mjög sterkt þegar ég var ólétt að ég væri dýr. Mér fannst ég á vissan hátt vera að stíga út úr mannleikanum og verða hluti af náttúrunni og á einhverja skrítna vegu fannst mér ég líka vera eins og mold, sem upp vex af gróður. Þetta er það sem bókin fjallar um fyrir mér, það hvernig gróðurinn og náttúran birtist í manneskjunni. Í mörgum textum kemur líka fram hvernig hið persónulega speglast í heiminum stóra og öfugt.

Jurtir tákna eins konar ástand eða tilfinningar og flétturnar mynda þar einhvern kjarna sem tengir mann við náttúruna. Þetta tekur á sig ýmsar myndir. Í einum textanum vex eggaldin úr koki konu sem glímir við kvíða. Í öðrum kljáist ljóðmælandi við ótta og það hjálpar honum að hugsa um fíkjur og hvernig tréð fléttast.

Það er gaman að segja frá því að þegar ég skoða fataskápinn minn, þá sé ég moldina í verkinu. Þar er mjög mikið brúnt og það hefur verið mikil haustlitastemning hjá mér í nokkur ár. Það er áhugavert að sjá hvernig maður fer í gegnum tímabil í lífinu, kaflaskiptingu þess og hvernig það birtist svo í sköpunarverkunum manns,“ segir Ragnheiður Harpa að lokum.