Marija Sartlija-Blazevic, matreiðslukona á veitingastaðnum Salti á Egilsstöðum mun ferðast til Tel Aviv í maí enda mun sonur hennar, Roko Blazevic, keppa fyrir hönd Króatíu en hann fór með sigur af hólmi í króatísku undankeppninni síðastliðinn laugardag með laginu „The Dream.“

Marija segir í viðtali við Austurfréttir að sonur hennar hafi hrærst í tónlist allt sitt líf og hafi meðal annars verið farinn að læra á píanó þegar hann var einungis fimm ára gamall. Hún segist enn vera hálf ringluð, enda er Roko bara átján ára gamall. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Roko tekið þát í ýmsum sjónvarspþáttum þar sem leitað er að söngstjörnum bæði í Serbíu og Króatíu og hefur Roko fengið viðurnefnið „hinn króatíski Michael Bublé.“ „Stjörnuleitin breytti miklu því eftir hana þekkti fólkið Roko,“ segir Marija meðal annars en hún var í stöðugum samskiptum við son sinn á meðan undankeppninni fyrir Eurovision stóð.

Heldur kannski tónleika á Egilsstöðum

„Ég horfði á í gegnum netið og var í stöðugum samskiptum við hann í gegnum net og síma. Starfsfólkið hér óskaði mér til hamingju. Yfirmaðurinn minn er vel að sér í tónlist og hann tók á móti mér þegar ég kom til vinnu og sagði að þau myndu öll kjósa Roko. Ég ætla til Ísraels og sjá hann syngja þar,“ segir Marija en Roko stígur á svið þann 16. maí, í seinni undanúrslitunum.

Marija flutti til Íslands í júní síðastliðnum, kann því vel og er að læra íslensku. „Fyrst hugsaði ég ekkert um að læra málið, mér fannst það of framandi, of erfitt. Mér finnst hins vegar erfitt að geta ekki sagt meira en halló ef ég þarf að afgreiða fólk. Íslendingar eru kurteisir og fyrst þeir eru góðir við mig, hví á ég ekki að læra málið þeirra. Ísland er orðið eins og mitt annað heimili,“ segir Marija en synir hennar ætla að koma til Egilsstaða í sumar. 

„Ég sagði við Roko að við myndum halda tónleika hér, ég veit ekki hvort það gangi eftir því hann er kominn með samning við umboðsmann, en hann hlýtur að geta tekið nokkur lög.“