Mohammad Sayeed, einn heitasti stuðnings­maður ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu, mun ekki mæta á leik Ís­lands og Frakk­lands sem fram fer á Laugar­dals­velli á laugar­daginn. Þetta stað­festir Hilmar Jökull Stefáns­son, stjórnar­maður í Tólfunni, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir þó að draumur Mohammad um Ís­lands­heim­sókn sé enn ekki úti.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá synjaði sænska sendi­ráðið í Bangla­dess Sayeed um vega­bréfs­á­ritun í lok septem­ber. Tólfan hafði staðið fyrir söfnun fyrir Sayeed sem fyrir löngu hefur öðlast á­kveðna frægð fyrir stuðning sinn við lands­liðið á sam­fé­lags­miðlum. Biðlaði Hilmar til stjórn­valda við til­efnið um að­stoð.

Allt kom þó fyrir ekki og segir Hilmar nú að það sé út­séð að Sayeed muni ekki ná leiknum og Laugar­dals­völlurinn því ekki prýddur með met­stórum Ís­lands­fána Mohammad að þessu sinni.

„Staðan er í raun og veru þannig að við sóttum um á­frýjun og það hefur í raun ekki komið neitt svar vegna þess. Nú er búið að bæta við þeim gögnum sem okkur var bent á að bæta við og staðan bara þannig að nú er verið að bíða eftir því að tekin verði á­kvörðun,“ segir Hilmar.

Sótt var um það fyrir tæpri viku og býst Hilmar við því að engin svör verði gefin fyrr en í næstu viku, þegar Frakk­lands­leiknum sé lokið. Sayeed sé þó nokkuð sama, hann vilji helst af öllu koma fána sínum til lands­liðsins og heim­sækja Ís­land.

„Honum er svo sem alveg sama, honum finnst það auð­vitað leiðin­legt. En hann langar bara að koma til landsins með fánann og að lands­liðið fái að endingu að bera fánann augum,“ segir Hilmar. Hann segir næstu skref verða á­kveðin þegar úr­skurður berst í hús.

„Sayeed er ekki búinn að gefa upp vonina um að koma til Ís­lands enn sem komið er,“ segir Hilmar. Hann segir Sayeed brattan, þrátt fyrir allt.

„Hann vill bara um­fram allt koma með fánann og það er það sem hann dreymir um. Ég veit svo sem ekki hvernig stöðunni er háttað hvað varðar miða, þar sem ég hef þurft að af­panta það, eðli málsins sam­kvæmt, en við vonum að minnsta kosti það besta hvað varðar fram­haldið.“