„Þegar við tölum um svindl erum við yfirleitt að vísa til þess að einhverjum hafi tekist að fara á svig við reglur til að koma sér í betri stöðu heldur en aðrir, eða til að fá einhver gæði í hendurnar, sem þar af leiðandi skiptast ekki jafnt niður," segir siðfræðingurinn Henry Alexander Henrysson.

„Það þarf nú ekki alltaf sérfræðinga til að bera kennsl á það hvort einhver hafi svindlað eða ekki. Börn eru oft bestu aðilarnir til að segja til um svindl, hvort sem það er á leikvellinum eða við jólatréð. Börn eru einnig fljót að koma auga á hvort afsakanir eða útskýringar í kjölfar þess að svindl kemst upp, halda vatni eða ekki.

Ein slík útskýring um hvers vegna ekki sé um svindl að ræða, sem mikið er notuð meðal fullorðinna, er að óheiðarleikinn sé ekkert annað en útsjónarsemi. Viðkomandi finnst þá að þau gæði sem hann kemst í á kostnað annarra, sé í raun ekkert annað en það sem hann verðskuldar.

Það að hann hafi komið sér í betri stöðu í tilteknu máli, byggist í raun ekki á neinu öðru en að hann sé þegar kominn í betri stöðu, í krafti leikni sinnar og hyggjuvits," segir Henry enn fremur.

„Þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir smáatriðum í málinu sem komst nýlega í fréttirnar varðandi rástímana í golfinu, þá virðist það að mörgu leyti sígilt dæmi um það þegar farið er á svig við reglur til að koma sér í betri stöðu. Hver veit nema það megi finna göt í reglunum og að þessi göt hafi verið nýtt?, en svindl snýst ekki einungis um að brjóta reglur.

Svindl snýst um það þegar maður gefur sjálfum sér forskot, eftir leiðum sem maður vill ekki innst inni að verði almennt stundaðar," segir siðfræðingurinn.