Boston-maraþonið fór fram í 126. skiptið um miðjan síðasta mánuð og tóku fimm Íslendingar þátt. María Lovísa Breiðdal náði besta tíma kvenna í hópnum en hún hljóp á 3 tímum, 35 mínútum og 3 sekúndum, sem setti hana í efsta sæti Ársbesta listans í maraþoni kvenna á hlaup.is.

María segir undirbúninginn fyrir hlaupið hafa verið frekar strembinn og hefði samkvæmt öllum fræðum átt að vera mun meiri en raun varð á. „Boston-maraþonið er haldið að vori, sem þýðir að mesti undirbúningurinn er yfir veturinn. Íslenski veturinn þetta árið var einstaklega snjóþungur, vindasamur og erfiður eins og flestir muna og settu allar þessar litaveðurviðvaranir strik í reikninginn. Erfiður vetur er þó kannski afar léleg afsökun þar sem nóg er af líkamsræktarstöðvum og inniaðstöðu fyrir hlaupara.“

Spenna fylgir stórum hlaupum

Hún segir alltaf ákveðna spennu fylgja því að taka þátt í svo stórum hlaupum. „Ég náði lágmarkinu fyrir Boston-maraþonið árið 2019 svo ég var búin að bíða lengi eftir þessu hlaupi. Íslenski veturinn hafði, eins og ég minntist á áðan, sett smá strik í æfingarnar svo ég var ekki alveg með á hreinu hvað ég ætti inni.“

Dagarnir fyrir hlaup eru frekar rólegir og segir María að hún reyni að nærast og sofa vel. „Ég flaug út tveimur dögum fyrir hlaup sem var mjög passlegt að mínu mati. Daginn fyrir hlaup nýtti ég svo til að fara á expó-ið og sækja hlaupagögnin. Það er mikið lagt í Boston expó-ið og hægt er að eyða góðum tíma þar í að labba milli bása, svo ekki sé minnst á að skoða og mögulega kaupa fatnað merktan maraþoninu. Dagana fyrir og eftir hlaup er annar hver maður sem gengur um í jakka eða öðrum fatnaði merktum maraþoninu, sem gerir stemminguna í borginni enn þá meiri, svo ekki sé minnst á medalíuna sjálfa sem margir bera um hálsinn marga daga á eftir.“

Carbonara-pasta nauðsynlegt

Kvöldið fyrir hlaup er nauðsynlegt að hennar mati að fá sér carbonara-pasta. „Á hlaupadegi finnst mér gott að gefa mér góðan tíma. Ég fæ mér kaffi og ristað brauð með smjöri og osti og vakna almennilega. Sólarvörnin er einnig mjög mikilvæg en ég gerði þau hrikalegu mistök að þessu sinni að gleyma henni og uppskar vel brennda öxl þegar ég kom í mark.“

Brautin í Boston er geggjuð, að hennar mati. „Hún er þakin áhorfendum alla leiðina sem hvetja mann áfram með hrópum, köllum og ótal skiltum með misgáfulegum hvatningarorðum. Helsta áskorunin er að fara ekki of hratt af stað enda er brautin niðurhallandi fyrstu kílómetrana. Mér leið rosa vel fyrri hluta hlaupsins og kom sjálfri mér á óvart en eftir 30 kílómetra var ég aðeins farin að stirðna. Það voru svo nokkrar eftirminnilegar brekkur þarna á seinni hlutanum til dæmis Heart­break Hill sem margir tala um, en í raun fannst mér brekkurnar sitt hvorum megin við hana mun erfiðari. Þegar stuðningsmannaskiltin með orðunum „Turn right on Hereford street and left on Boylston street“ fara að birtast veit það bara á gott því þá er endalínan ekki langt undan. Það er algjörlega mögnuð tilfinning þegar maður kemst yfir marklínuna og getur loksins hætt að hlaupa. Ég var svo ótrúlega heppin að hafa foreldra mína með mér úti sem hvöttu mig frá hliðarlínunni og fögnuðu með mér um kvöldið.“

Skemmtilegt hlaupasumar

María segir hlaup vera frábæra hreyfingu sem hægt sé að stunda hvar og hvenær sem er, það eina sem þurfi séu hlaupaskórnir. „Hlaupin eru líka, að mínu mati, streitulosandi og þar hefur maður nægan tíma til að hugsa og leysa jafnvel hin ýmsu vandamál. Það er líka ótrúlega gaman að skora aðeins á sjálfan sig og setja sér markmið um bætingar. Tilfinningin þegar maður nær þeim er alveg ólýsanleg.“

Hlaupasumarið fram undan verður skemmtilegt. „Það er búið að skipuleggja fullt af flottum hlaupum úti um allt land. Hápunktur sumarsins hjá mér er líklega Reykjavíkurmaraþonið í ágúst. Það er á planinu að hlaupa hálfmaraþon þar og svo er stefnan sett á Berlínarmaraþonið í haust. Vonandi verða einhverjar bætingar en fyrst og fremst ætla ég að hafa gaman.“