Heimildar­myndin Leyndar­málið verður frum­sýnd á RÚV í kvöld en í henni fylgjum við upp­runa og síðar ör­lögum ein­stakra, ís­lenskra frí­merkja sem eru metin á hátt í tvö­hundruð milljónir króna. Myndin er gerð af Birni Björnsssyni, en í henni er saga hins merki­lega Biblíu­bréfs skoðuð með dyggri hjálp tengda­föður hans, Haraldar Sæ­munds­sonar. Ef­laust tengja margir ekki frí­merkja­söfnun við þá spennandi og mögnuðu sögu sem sögð er í Leyndar­málinu, en í myndinni er hulunni loks svipt af því hver seldi upp­haf­lega Biblíu­bréfið árið 1972. RÚV lýsti bréfinu sem dýrasta bréfi Ís­lands­sögunnar í frétt sinni árið 2018, þegar nú­verandi eig­andi bréfsins, sænski greifinn Dou­glas Storc­ken­feldt, lánaði það á frí­merkja­sýningu hér á landi.

Þagði í hálfa öld

„Fyrir tveimur árum síðan fór ég með tengda­pabba mínum, Haraldi, til Suð­austur-Asíu og vorum við þar í sjö vikur, til að halda upp á ní­ræðis­af­mæli hans. Það er sem sagt í þessari ferð sem hann segir mér leyndar­mál sem hann hefur þagað yfir í um hálda öld, sem ég geri síðan heimildar­myndina um,“ segir Björn.

Haraldur var frí­merkja­kaup­maður í Reykja­vík og rak Frí­merkja­mið­stöðina við Skóla­vörðu­stíg.

„Á hans fjörur rak þetta bréf sem kallast Biblíu­bréfið, sem er ekki bara dýrasti póst­sögu­gripur Ís­lands heldur sá lang­dýrasti. Það er enginn sem kemst neitt ná­lægt því, enda meðal dýrustu frí­merkja­gripa í heimi.

Það er erfitt að meta ná­kvæmt verð þar sem það hefur alltaf verið boðið upp á upp­boðum, og svo er það keypt af um­boðs­mönnum kaup­enda sem koma ekki fram undir nafni.“

Það var árið 1973 sem bréfið komst fyrst í al­manna­vitund þegar það birtist á upp­boði í Þýska­landi.

„Ættingjar þess sem bréfið er stílað á, Þor­steins Jóns­sonar sýslu­manns á Kiðja­bergi, kröfðust þess að fá bréfið til baka. Það hafði verið stílað á þeirra ættar­óðal og þau vildu meina að bréfinu hlyti að hafa verið stolið. Þá var gerð til­raun til að stoppa upp­boðið með hjálp Inter­pol.“

Það tókst ekki og bréfið var selt.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Nafnið upp­spuni

„Bón ís­lenskra yfir­valda um að fá að sann­reyna hvort rétt­mætur eig­andi sé að selja bréfið gengur því ekki eftir. Enginn vissi hver seljandinn eða kaupandinn var og héldu margir að það myndi hverfa fyrir fullt og allt, þar til bréfið birtist á öðru upp­boði. Þar er það aftur selt nafn­lausum manni. Við vitum þó hver nú­verandi eig­andi bréfsins er, greifinn Dou­glas Storc­ken­feldt. Hann er frí­merkja­safnari og á til dæmis lang­stærsta safn ís­lenskra frí­merkja í ver­öldinni,“ út­skýrir Björn, en Dou­glas sýnir bréfið á frí­merkja­sýningum víðs vegar um heiminn.

Sagan segir að bréfið hafi fundist inni í gamalli biblíu og því náð að varð­veitast eins vel og raun ber vitni. Í myndinni er út­skýrt að raunin sé önnur.

„Tengda­pabbi og Magni, sem átti með honum búðina, á­kváðu þetta nafn. Það hafði komið til þeirra maður sem vildi verð­meta gamla peninga­seðla, þeir höfðu verið geymdir inni í gamalli Biblíu og því vel varð­veittir líkt og bréfið. Þeim þótti sagan svo góð og fóru að kalla þetta Biblíu­bréfið, hún er til­búningur sú saga. Bréfið fannst því ekki í Biblíu,“ segir Björn.

Frí­merkin á bréfinu voru gefin út í skamman tíma. Bréfið þykir einnig ein­stakt fyrir þær sakir að á því eru 23 frí­merki, en það er afar sjald­gæft að svo mörg verð­mæt frí­merki finnist á einu og sama bréfinu.

„Á­stæðan fyrir því að svo mörg frí­merki voru á bréfinu er að verið var að senda Þor­steini nýja sam­nor­ræna mynt sem hafði sama verð­gildi í Sví­þjóð, Noregi og Dan­mörku, en á þessum tíma var Ís­land undir stjórn
Dana. Þannig að þetta var þungur böggull en líka verð­mætur, sem út­skýrir fjölda frí­merkjanna.“

Hulunni svipt af

Hingað til hefur verið talið að bréfið hafi verið sent árið 1875 eða 1876.

„En í myndinni kemur í ljós að það er ekki rétt.“

En hvert er hið stóra leyndar­mál sem fram kemur í myndinni?

„Tengda­faðir minn segir mér frá því hver átti upp­haf­lega þetta bréf. Sá sendi til hans lög­fræðing með bréfið árið 1972, til að at­huga hvort Haraldur og Magni kæmu því í verð. Tengda­pabbi segist geta gert það, þótt það taki ein­hvern tíma þar sem um ein­stakan grip sé að ræða. Nokkrum mánuðum seinna fer hann með bréfið til Stokk­hólms og selur það þar. Hann færir lög­fræðingnum á­góðann sem lætur svo eig­andann fá hann. Tengda­pabbi er alveg viss um hver eig­andinn sem sendi lög­fræðinginn er. Hann var tregur til að leyfa mér að gera heimildar­mynd um málið, líka þar sem þetta er nafn­togaður maður. Hann lést árið 2002 og á enga af­kom­endur, það var nú í því ljósi sem tengda­pabbi féllst á að upp­lýsa hver maðurinn væri sem átti þetta bréf,“ segir Björn.

Í myndinni er rann­sakað hvort þetta sé rétt hjá Haraldi, og hvernig við­komandi hafi mögu­lega komist yfir bréfið. Leyndar­málinu er því ætlað að skýra eða hrekja full­yrðingar Haraldar um hver hafi selt bréfið árið 1972.

Leyndar­málið er frum­sýnt í kvöld klukkan 20.00 á RÚV.