Sonur Mariu Clark lést í bílslysi fyrir tveimur árum síðan, einungis 25 ára gamall. Hún hugsaði strax með sér að hún ætlaði að nýta líffærin hans í líffæragjöf. Hjartað hans slær núna í fjórtán ára dreng, tveimur árum eftir andláts sonar Clark. ABC News greina frá þessu.
„Ég sagði: Við getum ekki grafið alla þessa töfra, við verðum að deila þeim,“ sagði Clark, móðir þriggja eftirlifandi barna.
Clark sagði það hafa verið ósk sonar síns að verða líffæragjafi. Þegar sonurinn lést var viðtakandi einungis þrem tímum frá honum.
Í september árið 2020 var drengur að nafni Jean Paul Marceaux á biðlista eftir sinni annarri hjartaígræðslu, en hann var þá einungis 12 ára.
Jean Paul fór í sína fyrstu hjartaígræðslu aðeins tveggja ára, en um tíu árum síðar fór hjartað hans að bila að sögn móður hans Candace Armstrong. „Þegar hann fékk fyrstu ígræðsluna vissum við að líkurnar á því að hann þyrfti að fara í aðra ígræðslu væru miklar. Hann endaði síðan á sjúkrahúsi árið 2020,“ sagði Armstrong.
Clark sagðist vita að hjarta sonar síns hefði verið gefið en vissi þó ekki hver hefði tekið við því. Í flestum tilfellum líffæragjafar er fjölskyldum sagt að bíða í eitt ár áður en þau hafa samband við viðtakanda líffæranna.

Heyrði aldrei frá fjölskyldu fyrsta líffæragjafans
Armstrong, móðir Jean Paul, sagðist aldrei hafa heyrt frá fjölskyldu fyrsta hjartagjafans, en það leið ekki ár þangað til að Clark hafði samband við Armstrong og lét hana fá bréf með nafni og mynd af syni sínum.
Clark segist ekki hafa getað beðið eftir því að sjá hver fékk hjarta sonar síns. „Mig langaði að vita hvar líffærin hans eru. Ég vildi vita að þau væru í lagi,“ sagði hún.
Þær mæður héldu sambandi í gegnum skilaboð á Facebook en Armstrong var dugleg að senda uppfærslur um bata Jean Paul. „Hún sýndi mér myndband af honum dansa á fyrsta ballinu. Ég var ánægð að sjá það,“ sagði Clark.
Covid-19 hafði þau áhrif að seinka þurfti fundi þeirra, en Jean Paul hefur slæmt ónæmiskerfi eftir ígræðsluna svo hann einangraði sig í faraldrinum.
Fjölskyldurnar tvær náðu að hitta hvora aðra tæpum tveimur árum eftir að Jean Paul tók við hjartanu.
„Hann kom inn og hann faðmaði mig bara. Hann knúsar fast, eins og sonur minn. Og svo fékk ég að heyra hjartsláttinn, hann var svo sterkur og fullur af lífi,“ sagði Clark.
Móðir Jean Paul sagði Clark og börn hennar vera orðin hluti að fjölskyldu hennar „að eilífu.“