Verk eftir átta listakonur eru á sýningu sem nú stendur yfir í i8 Galleríi. Listakonurnar eru: Margrét H. Blöndal, Ásgerður Búadóttir, Eyborg Guðmundsdóttir, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Arna Óttarsdóttir, Ragna Róbertsdóttir, Karin Sander og Júlíana Sveinsdóttir.

Börkur Arnarson, eigandi i8, segir að hugmyndarinnar að sýningunni megi leita til tveggja verka eftir Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá sem eru í eigu gallerísins. „Mig hafði lengi langað til að setja þau á sýningu og svo kom rétti tíminn. Þegar Ásgerður Búadóttir var á lífi sýndum við tvisvar verk eftir hana og þar er viss tenging við verk Kristínar. Í Berlín sá ég nýtt verk eftir Karin Sander, en hún er listakona sem við í i8 vinnum með. Þarna voru gömul verk og nýtt verk sem kölluðust á og hugmynd að sýningu kviknaði. Ég hef alltaf haft gaman af að horfa á hlutina í samhengi og þarna sjáum við módernismann í samhengi við daginn í dag. Verkin úr samtímanum ríma við verk Ásgerðar, Kristínar, Eyborgar og Júlíönu, en eru ekki gerð út frá sömu forsendum,“ segir Börkur.

Verk eftir Kristínu Jónsdóttur.

Arna Óttarsdóttir er yngsti listamaðurinn á sýningunni en 99 ár eru á milli fæðingardags hennar og Júlíönu Sveinsdóttur. Verk Örnu Óttarsdóttur er tileinkað bandarísku listakonunni Agnesi Martin. Verk Eyborgar eru sömuleiðis verk sem ekki margir hafa séð, en haldin var yfirlitssýning á verkum hennar á Kjarvalsstöðum fyrr á þessu ári.

Þýska listakonan Karin Sander er í hópi listakvennanna, en hún bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð í byrjun þessa árs, en þar komu pálmatré mjög við sögu, og miklar umræður sköpuðust um hugmyndir hennar. Á þessari sýningu sýnir hún gervigrasvöll. „Þetta verk Karenar er eins og klippt úr fótboltavelli, þetta er vítateigur sem á þessum stað er orðinn eins og málverk frá árunum 1950-60 og er þar með farið að tala við hin verkin,“ segir Börkur.

Séð yfir sýningarsalinn. Verk eftir Rögnu Róbertsdóttur er í forgrunni.

Margrét Blöndal gerði verk sérstaklega fyrir þessa sýningu. „Teikningar Margrétar eru skúlptúrar og skúlptúrarnir hennar eru teikningar. Hér sýnir hún skúlptúra í þrívídd sem eru um leið miklar teikningar. Eftir að hafa séð öll hin verkin vann hún sín verk inn í þetta rými,“ segir Börkur.

Um þessa áhugaverðu sýningu segir Börkur: „Við vitum að þessi verk eru frábær, en við ætluðum okkur líka að láta sýninguna virka sem heild.“ – Og það gerir hún sannarlega.