Sjónvarpsþættirnir Modern Family hafa sungið sitt síðasta en lokaþáttur grínþáttanna vinsælu kom út á sjónvarpsrásinni ABC í gærkvöldi. Milljónir hafa fylgst með þáttunum síðan þeir voru frumsýndir árið 2009 og hafa alls ellefu þáttaraðir verið gefnar út.

Þættirnir voru á hátindi sínum á árunum 2013 og 2014 þegar um 14 milljónir áhorfenda fylgdust vikulega með vendingum hjá nútíma fjölskyldunni.

Áhorf hefur þó dalað í seinni tíð og þótti framleiðendum komin tími til að binda lokahnút á göngu þáttana með tvöföldum lokaþætti og heimildarmynd um gerð seríanna.

Nútíma fjölskylda

Í þættinum er fylgst með skoplega lífi þriggja kjarnafjölskyldna sem tilheyra sömu ættinni og hefur mikið gengið á í gegnum tíðina. Meðal aðdáenda þáttana eru stjörnur á borð við Ellen DeGeneres og Josh Grad, sem kvöddu þættina með söknuði á Twitter.

Þáttaraðirnar hafa einnig hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal Golden Globe verðlaunin fyrir bestu gamanseríu ársins.

Leikarar Modern Family hafa mörg hver alist upp við gerð þáttanna.
Fréttablaðið/Getty