Brynja býr ásamt eiginmanni sínum, Hafþóri Bjarnasyni, í Kjósinni á fallegum stað í Norðurnesinu. Húsið þeirra ber heitið Móberg og má með sanni segja að það sé nafn með rentu. Náttúran allt í kring skartar sínu fegursta og útsýnið yfir fjöll og dali gleður augað.

Brynja er dugleg að rækta alls konar góðgæti, hún er með stóran kálgarð, kartöflugarð og lítið krúttlegt gróðurhús þar sem hún fær væna og fjölbreytta uppskeru af ýmsu góðgæti sem hún nýtir bæði í bakstur og eldamennsku. Rabarbarinn hefur blómstrað í sumar og Brynja er búin að nýta hann í ýmsar kræsingar eins og sultu og rabarbarapæ.

Ljúffengt rabarbarapæ með vanilluís og karamellusósu.

„Sultan og rabarbarapæið er mjög vinsælt hjá krökkunum og þau koma gagngert til fá gott með kaffinu og elska að fá þessar kræsingar þar sem rabarbarinn er ríkjandi. Það er synd að í ansi mörgum görðum er vannýttur rabarbari sem er þó svo einfalt að nýta. Sultan er til að mynda mjög einföld,“ segir Brynja.

Móbergs rabarbarasulta

1 kg rabarbari, skorinn í litla bita

750 g sykur, Brynja notar hrásykur

Mér finnst best að setja allt í pott að kveldi og kveikja síðan undir daginn eftir. Þá hefur sykurinn náð að leysast vel upp. Soðið í 3 til 4 tíma. Þegar sultan er orðin þykk og falleg á litinn er hún tilbúin. Mér finnst tilheyra að það séu bitar í henni en auðvitað má setja töfrasprotann í og mauka hana alveg. Hún er sett í hreinar krukkur þegar hún hefur aðeins kólnað. Þetta er, að mínu mati besta sultan á pönnukökur og vöfflur og hver fúlsar við hjónabandssælu með rabarbarasultu?

Brynja er búin að sulta í krukkur. Rabarbarasultan geymist vel.

Móbergs rabarbarapæ

4-5 stilkar af rabarbara eða það sem passar sem góð botnfylli í mótið sem notað er

100 g sykur

100 g smjör

80 g hveiti

20 g kókosmjöl. (Ef fólk vill ekki kókosmjöl eru 100 g hveiti)

Súkkulaði (t.d. með kókosmjöli)

Rabarbari skorinn í litla bita og settur í eldfast mót, örlitlum sykri stráð yfir (rabarbarinn er misjafnlega súr, hann er súrari eftir því sem líður á sumarið og sá græni er líka yfirleitt súrari).

Brytjað súkkulaði sett yfir, eftir smekk, mér finnst ekki þurfa mikið.

Bræðið smjörið og hrærið saman við hveiti, sykur og kókosmjöl og myljið yfir.

Eldfasta mótið sett inn í ofn við 200°C hita í 30 til 40 mínútur. Ofnar eru misjafnir, þá má bulla vel í og að yfirborðið sé orðið gullið og stökkt. Berið fram með ís eða þeyttum rjóma. Svo er bara að njóta.

Það er einfalt að stækka þessa uppskrift eftir fjölda gesta og stærð móts sem notað er. Stærra mót – 150 grömm af hráefnunum.