Heilsumamman Oddrún býður upp á námskeið í Heilsuborg og þessa dagana eru þau tvenns konar; Morgunmatur og millimál og svo kvöldverðarnámskeið þar sem áhersla er lögð á að auka hlut grænmetis á disknum. Oddrún segist leggja áherslu á að uppskriftirnar séu einfaldar og innihaldi ekki of mörg hráefni. „Það að borða næringarríkan mat þarf hvorki að vera flókið né bragðlaust.“

Oddrún Helga heldur þessa dagana tvenns konar matreiðslunámskeið í Heilsuborg. Nánari upplýsingar eru á heilsumamman.is eða á Facebook og instagram undir sama nafni. Fréttablaðið/Anton Brink

Klattarnir eru tilvaldir með kaffi- eða tebollanum hvort sem er spari eða hversdags.

Mjúkir og kryddaðir hafraklattar

Þessi uppskrift gerir um 20-25 klatta

4 dl haframjöl

1,5 dl kókosmjöl

1,5 dl fræ (sólblóma/ sesam)

100 g smjör/ 1 dl olía

2 egg

1 dl kókospálmasykur (má minnka fyrir sykurminni útgáfu)

1 tsk vanilludropar

2 tsk kanill

1/2 tsk negull

smá salt

60 g smátt saxað dökkt súkkulaði (notum líka stundum hvítt súkkulaði með til hátíðarbrigða) og það má líka skipta súkkulaðinu út fyrir 1 dl af smátt söxuðum döðlum

Hitið ofninn í 180°C

Bræðið smjörið eða olíuna (ef þið notið kókosolíu).

Pískið eggin vel og blandið smjörinu/olíunni saman við þau ásamt sykrinum.

Bætið þurrefnunum saman við blönduna.

Setjið deigið á bökunarpappír  (1 msk hver kaka)

Bakið í  12-15 mínútur.

Klattarnir mega vera örlítið mjúkir þegar þeir koma út úr ofninum því þeir harðna þegar þeir kólna.  

Klattarnir innihalda kókospálmasykur en hann má minnka ef fólk vill gera sykurminni útgáfu af klöttunum.