Það er ekki leiðindunum fyrir að fara þegar Hvann­dals­bræður birtast á sviði, hvort heldur það er á heima­slóðunum á Trölla­skaga eða annars staðar á landinu fagra, enda taka þeir sig engan veginn al­var­lega – og eru alla jafnan til alls lík­legir þegar þeir telja í lögin sín ljúfu.

„Við vorum nú bara tríó til að byrja með,“ segir Rögn­valdur Bragi af tals­verðri hóg­værð og minnist haustsins 2002, alt­so fyrsta dags októ­ber það ár, þegar þre­menningarnir komu fyrst saman. Þar hélt Valur Freyr Hall­dórs­son um kjuðana og Sumar­liði Hvann­dal plokkaði bassann, en sjálfur var Rögn­valdur á kassa­gítar – og er enn.

Dægur­lagapönkari um skeið

En hann átti sér for­tíð, þó ekki skugga­lega, en skrýtna. „Ég varð náttúr­lega fyrst kunnur af spil­eríi í dægur­lagapönk­sveitinni Húfu“ rifjar hann upp, en það var á meðan hann bjó í Reykja­vík, en pönk­sveitin sú arna var harla harð­kjarna, þótt húmorinn hafi nú yfir­leitt svifið yfir sviði.

Þetta var á níunda ára­tugnum og Rögn­valdur gekk þá vana­lega undir nafninu Rögn­valdur gáfaði, sem þótti fara honum vel. „En að eigin mati og svo margra annarra var þetta þver­stæða veru­leikans,“ viður­kennir hann loksins um miðjan aldur. „Svo ég er löngu hættur svona fífla­látum, enda orðinn ráð­settur og þroskaður maður,“ segir hann, en hvunn­dags starfar kappinn sem yfir­maður þvotta­hússins á elli­heimilinu Hlíð á Akur­eyri – og er þar af leiðandi vel búinn undir efri árin.

Við erum líka á guðs vegum

Hvann­dals­bræður voru ekki lengi bara tríó heldur hafa þeir meira en helmingast að stærð í seinni tíð, en fyrst bættist mandólín­leikarinn Pétur Hall­gríms­son við sveitina, á­samt Val­mari Väljaots sem er ekkert minna en höfuð­snillingur á fiðlu og harmóniku „og þaul­vanur kirkju­organ­isti, svo við erum líka á guðs vegum,“ skýtur Rögn­valdur inn í sam­talið.

Loks kom hljóm­borðs­leikarinn Arnar Tryggva­son við sögu sveitarinnar, „á­samt reyndar Gunnari Sigur­björns­syni hljóð­manni sem er fullur með­limur, þó ekki drukkinn, en það er engin stétta­skipting innan Hvann­dals­bræðra,“ bætir Rögn­valdur við, eitt sinn gáfaður.

„Við klæddumst lopa­peysum með flóka­hatta úr þæfðri ull á höfði, en það átti að slá út allt í fá­rán­leika, en viti menn, svo komst þetta bara í tísku um allt land“

Vildum vera hall­æris­legir

Hann segir nafn­gift sveitarinnar eiga sér sögu. „Okkur langaði í virki­lega hall­æris­legt nafn og ég held það hafi tekist,“ og svo bætir hann því við að búningar sveitarinnar hafi verið ein­stak­lega púka­legir í byrjun, af ráðnum hug. „Við klæddumst lopa­peysum með flóka­hatta úr þæfðri ull á höfði, en það átti að slá út allt í fá­rán­leika, en viti menn, svo komst þetta bara í tísku um allt land,“ segir hann og getur ekki varist brosi.

Og hann minnist þess líka að þeir hafi bein­línis grætt á nafn­gift flokksins. „Blessaður vertu, í einu hléinu á tón­leikum okkar komu öldruð hjón að máli við okkur, heldur ó­hress með spilið okkar, en þau héldu að þau væru að fara á tón­leika með Álfta­gerðis­bræðrum. Þau höfðu eitt­hvað ruglast á bræðrum, sum sé,“ segir Rögn­valdur og brosir enn þá stórum.

Halda í tap-tón­leika­röð

Af­mælis­tón­leikarnir verða í Hofi á fæðingar­daginn, 1. októ­ber 2022, en í að­draganda þeirra ætla Hvann­dals­bræður að fara í svo­kallaða tap-tón­leika­ferð um landið. „Við reiknum með að tapa á allri þeirri tón­leika­röð,“ út­skýrir Rögn­valdur, en spilað verður bara á litlum stöðum sem sveitin hefur ekki troðið upp á til þessa, helst í litlum sölum eins og Te­húsinu á Egils­stöðum og Beitu­skúrnum í Nes­kaup­stað, en þaðan verður haldið suður á leið uns hringnum verður lokað í heima­höfninni á Akur­eyri.

„Við erum al­vanir – og þótt margir okkar tón­leika hafi vissu­lega verið verri en aðrir, þá verðum við á hinum endanum í haust,“ segir Rögn­valdur Bragi Rögn­valds­son.