Fyrst eftir að ég gerðist grænkeri fékk ég eina litla hillu undir matinn minn í ísskápnum heima en nú hefur það snúist við og er sama litla ísskápshillan notuð undir það sem er ekki vegan. Það eru allir svo yfir sig hrifnir af grænkerafæðinu heima,“ segir Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir, grænkeri og senn útskriftarnemi í arkitektúr við Listaháskóla Íslands.

Þórdís opnaði vefsíðuna ­grænkerar.is ásamt kærasta sínum, Aroni Gauta Sigurðarsyni ljósmyndara, á alþjóðlega vegandaginn 2. nóvember síðastliðinn.

„Það var sameiginleg ákvörðun okkar Arons að verða grænkerar. Við erum dýravinir og vissum innst inni að við vildum leggja okkar á vogarskálar dýraverndar og umhverfisverndar en eftir að hafa horft á Cowspiracy, sláandi heimildarmynd um loftslagsáhrif kjöteldis, misstum við endanlega lystina á dýraafurðum og urðum vegan á einu kvöldi,“ segir Þórdís, en síðan eru liðin þrjú ár.

„Við Aron erum engir kálfar enda vorum við bæði með mjólkur­óþol áður en við gerðumst grænkerar. Við fundum strax mikinn mun, húðin stórbatnaði, sem og meltingin, og allt slen var fyrir bí. Við þurftum síður að leggja okkur á daginn og auðveldara var að vakna,“ upplýsir Þórdís.

Þau Aron hafa bæði verið virk í íþróttum; hún í þríþraut og CrossFit og hann í parkour.

„Við fundum fljótt hvað grænkerafæðið hafði góð áhrif á íþróttaiðkunina, maður jafnar sig hraðar og uppsker mikla orku. Pabbi, sem nú hefur æft þríþraut í þrjú ár, ákvað að prófa grænkerafæði í mánuð, eftir að hafa kynnt sér heilsuávinninginn af því, og hefur ekki enn hætt því hálfu öðru ári síðar. Breytingarnar eru drastískar og koma svo sannarlega ánægjulega á óvart,“ segir Þórdís.

Ljúffengir staðgenglar

Þegar Þórdís hafði ekki lengur undan að senda uppskriftir af gómsætu grænkerafæði til vina og ættingja ákváðu þau Aron að koma uppskriftasafninu á einn stað og öllum til að njóta á grænkerar.is.

„Við viljum sýna fram á að það er auðvelt að laga hefðbundinn og vinsælan heimilismat úr jurtafæði. Ef fólk saknar hráefnis úr dýraríkinu verður æ auðveldara að finna bragðgóða staðgengla í réttina og sem veita gómsætar upplifanir, ánægju og saðningu,“ útskýrir Þórdís, en þau Aron sakna engra dýraafurða.

„Ef ég ætti að mæla með einu hráefni fyrir þá sem vilja prófa eitthvað úr vegandeildinni væri það Oumph! Margir finna engan mun á því og kjúklingi en Oumph! er óerfðabreytt sojakjöt og frábær kostur fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin og finna staðgengil í til dæmis uppáhaldskjúklingaréttinn sinn. Það er hægt að fá ýmist hreint og kryddað, og bæði fljótlegt og einfalt að smella því beint í ofninn eða á pönnuna,“ segir Þórdís sem notar Oumph! þegar hún vill hafa eitthvað virkilega djúsí og gott í matinn.

„Það er skemmtilegt að elda vegan því maður má smakka matinn á öllum stigum og aldrei neitt hrátt sem ekki má borða. Frelsið er algjört og sköpunargleðin við völd,“ segir Þórdís sem fær ávallt góð viðbrögð við vegan matseldinni. „Meira að segja litlu frænkur mínar sem eru svolítið matvandar ætluðu aldrei að hætta að borða svartbauna-tortillurnar!“

Litlu skrefin líka mikilvæg

Þórdís telur að miklu myndi muna fyrir jörðina ef fólk tileinkaði sér ekki nema einn dag í viku þar sem grænkerafæði væri á borðum.

„Öll skref eru skref í rétta átt, hversu lítil sem þau eru. Ég legg ekki endilega til að fólk gerist vegan á einu kvöldi eins og ég gerði, en að taka það í nokkrum skrefum. Þá vindur það eflaust upp á sig því maturinn er svo bragðgóður og heilsa og líðan batnar, og þá verður grænkerafæði oftar fyrir valinu á borðum.“

Þórdís tekur B12-vítamín, ­D-vítamín og stundum járn til að mæta hugsanlegum skorti á lífsnauðsynlegum næringarefnum.

„Eftir að ég gerðist grænkeri fer ég í blóðprufur á hálfs árs fresti. Gildin mín hafa aldrei mælst betri og upptaka á B12 loksins komin upp fyrir lágmarksgildi. D-vítamín tek ég svo á veturna eins ráðlagt er vegna sólarleysis og járn vegna þess að ég er kona,“ útskýrir Þórdís.

Þegar Þórdís og Aron vilja gera virkilega vel við sig á kósíkvöldi verður grænkerapitsa fyrir valinu.

„Í byrjun er oft mesti vandinn fyrir grænkera að hætta ostneyslu en nú fæst orðið mjög gott úrval jurtaosta, eins og Oatly-smurosturinn sem ég nota mikið. Á pitsuna búum við Aron til okkar eigin ost sem við lögum úr cashew-hnetum, vatni og bráðhollu næringargeri. Þetta sjóðum við saman og úr verður þykkt mauk með ostakeim sem bráðnar í ofni og gefur dásamlega mjúka áferð og ómótstæðilegt ostabragð. Á pitsuna setjum við til dæmis sveppi, lauk, Oumph! og döðlur og það besta er að pítsan er holl og óhætt að borða vel af henni.“

Skoðaðu girnilegar grænkerauppskriftir Þórdísar og Arons á grænkerar.is

Linsubauna bolognese Þórdísar og Arons

1 laukur, smátt skorinn

2 hvítlauksrif, pressuð

3 stórar gulrætur, rifnar á rifjárni

½ paprika, smátt skorin

1 dós hakkaðir tómatar

1 dós tómatpúrra (70 g)

1,5 dl rauðar linsubaunir, þurrar

1 dl grænar linsubaunir, þurrar

8 dl vatn

½ grænmetisteningur

1 tsk. tamarisósa

Paprikukrydd

Oregano

Handfylli fersk basilíka, smátt söxuð

Aðferð:

Setjið lauk og hvítlauk á pönnu ásamt olíu og mýkið við lágan hita í smástund. Bætið gulrótum út á pönnuna og steikið áfram þar til þær hafa mýkst. Setjið næst linsubaunirnar, tómata úr dós, tómatpúrru og vatn á pönnuna. Látið malla við lágan hita í 30 til 40 mínútur, með lokið á. Bætið við vatni ef þarf. Þegar um 20 mínútur eru eftir af eldunartíma er paprikunni bætt út í og leyft að eldast í smástund. Loks er kryddunum bætt út í ásamt grænmetisteningnum og tamarisósu. Smakkið og bætið við kryddum eftir þörfum. Ef blandan er laus í sér, það finnst mikið baunabragð eða baunirnar eru ekki alveg mjúkar, þarf að sjóða lengur.

Gott að hafa í huga!

Það má sleppa fersku paprikunni og nota til dæmis meira papriku­krydd í staðinn.

Mjög gott er að bæta við skornum sveppum út í réttinn.

Sleppa má grænum linsubaunum og nota meira af rauðum.

Tortillur með svartbaunamauki

2 dósir svartbaunir, skola þær vel

1 krukka salsasósa

2 til 3 msk. taco krydd

1-2 dl skorið grænmeti, til dæmis laukur, paprika og tómatur

Aðferð:

Setjið öll hráefnin á pönnu og steikið þar til grænmetið hefur mýkst. Setjið blönduna í matvinnsluvél í örfáar sekúndur þannig að baunirnar maukist en grænmetið sé í smáum bitum. Best er að bera maukið fram á tortillaköku ásamt salsasósu, fersku grænmeti, heimagerðu lárperumauki, sýrðum rjóma (til dæmis frá Oatly) og nachos-flögum.