Líf Söndru Ýrar Grétarsdóttur fór á hinn versta veg þann 21. júní 2012 þegar það rann upp fyrir henni að Gabríel Reynir, 18 mánaða heilbrigður sonur hennar, vaknaði ekki upp úr svefni. Niðurstaða réttarmeinafræðings var síðar sú að Gabríel hefði dáið vöggudauða og Sandra þurfti ein að takast á við verstu martröð allra foreldra, þá aðeins 18 ára gömul.
Sandra segir frá þessum örlagaríka degi og því sem gerðist í framhaldinu í einlægu og opinskáu viðtali í fyrsta þætti hlaðvarpsins Móðurlíf.
„Hann var alltaf með tuskuna á eftir mér,“ segir Sandra Ýr þegar hún var beðin að lýsa Gabríel og hvernig karakter hann var. Hún segir hann alltaf hafa verið glaðan.
Þegar hún segir frá deginum sem hann lést segir Sandra Ýr að hún hafi vaknað snemma um morguninn og hún hafi byrjað á því að gefa honum að drekka. Hún segir við þáverandi kærastann sinn að hún ætli á æfingu og þá hafi Gabríel verið sofandi.
„Ég var í magakviðtæki og fæ svona, þetta var svona köld tilfinning, og mér leið eins og ég væri að verða fárveik,“ segir Sandra Ýr og bætir við að henni hafi liðið mjög undarlega.
Hún segir að einkaþjálfarinn hafi sent hana heim og hún hafi verið stöðvuð af lögreglunni á leiðinni heim því hún virti ekki stöðvunarskyldu. Hún segir að hún hafi hringt í pabba Gabríels til að spyrja hvort að hann hafi viljað taka barnið og hann segir nei, sambandið hafi ekki verið gott.

Var sofandi þegar hún kom heim
Hún segir að hún hafi komið heim og Gabríel hafi þá enn verið sofandi. Hún hafi þá lagst upp í rúm og hún segir við strákinn sem hún var með að athuga með Gabríel.
„Svo heyri ég bara „Hann er dáinn“, bara öskrandi. Hann andar ekki, hann andar ekki,“ segir Sandra sem segir að hún hafi sagt á móti að það væri ljótt að ljúga svona en hafi hraðað sér inn í herbergið, snúið honum við og séð mar á annarri hliðinni og að litli drengurinn hennar hafi ekki andað.
Hún segir frá því hvernig hún reyndi að endurlífga hann og hvað hafi gerst eftir að sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Hún segir frá því hvernig hún þurfti að segja barnsföður sínum fréttirnar og hvernig hún kenndi sér um.
Í viðtalinu segir Sandra einnig frá því hvernig slúðursögur um andlát Gabríels bættust ofan í óyfirstíganlega sorg sem á endanum leiddi út í mikla fíkniefnaneyslu til að deyfa sársaukann. Sandra Ýr eignaðist sitt annað barn árið 2013.
Sandra kenndi sér lengi um andlát Gabríels en í þættinum fjallar hún opinskátt um hvernig hún náði botninum í heimi fíkniefna og frá leiðinni að batanum. Henni tókst á endanum að snúa algjörlega við blaðinu en í þættinum segir hún frá því að sársaukinn sem fylgir barnsmissi fari aldrei – þó það sé hægt að lifa með honum.
Hér að neðan er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.