Sýningin Er­ling Klin­gen­berg stendur yfir í sýningar­rými Ný­lista­safnsins og Kling & Bang í Mars­hall­húsinu. Á sýningunni, sem stendur til 26. apríl, er að finna 38 verk frá 25 ára ferli lista­mannsins. Hátt í níu tonna úti­verk blasir við gestum er þeir koma að húsinu.

„Elsta myndin er frá 1994 þegar ég út­skrifaðist úr Mynd­lista- og hand­íða­skólanum. Ég var þar í málara­deild og fékkst mikið við mál­verkið en svo fóru mis­munandi hug­myndir að kalla á aðra miðla,“ segir Er­ling, sem hefur sýnt víða, bæði hér­lendis og er­lendis.

Spurður hvort verkin á sýningunni eigi eitt­hvað sam­eigin­legt segir hann: „Al­gjör­lega. Ég er að spá í um­hverfið sem lista­maðurinn og verk hans finna sig í. Hið ná­læga um­hverfi, list­heiminn og á­hrif hans á ytra um­hverfið, sýn sam­fé­lagsins á listina og manninn á bak við hana og alla þá pólitík sem því fylgir. Hvað hefur á­hrif á það hvernig við sjáum hluti og hvað fær að sjást. Ég er líka að velta fyrir mér þeirri í­mynda­sköpun sem fer í gang.

Verk mín eiga það líka mörg sam­eigin­legt að ferlið á bak við sköpun þeirra og tengingar ýmsar eru mikil­vægari en endan­leg út­koma. Endan­leg út­koma verður stundum eins konar tál­beita fyrir ein­hverju allt öðru sem þar liggur að baki.

Þar sem hug­myndirnar sem koma til mín eru að vissu leyti ó­líkar, þó þær fylgi á­kveðnum slóðum, þá nýti ég ó­líka miðla til að koma þeim sem best á fram­færi.“

Blýantur Birgis Andrés­sonar

Meðal verka á sýningunni eru þrjár stórar ljós­myndir af lista­manninum á ýmsum aldri og gler­kassi sem geymir ýmsa muni. „Á sínum tíma settu Kjar­vals­staðir upp stóra mynd af Kjarval og gler­kassa þar sem var meðal annars lita­pallettan hans og upp­á­halds matur. Í fram­haldi af því fór ég að velta fyrir mér hvað gerist þegar lista­maðurinn hefur kvatt þennan heim. Hvernig er farið með minningu hans og hvað er hægt að leyfa sér að gera? Hefur sýn okkar á mann­eskjuna á­hrif á það hvernig við sjáum sköpunar­verk hans. Þannig að út­skriftar­verk­efni mitt í Mynd­lista- og hand­íða­skólanum var í þessum sama dúr. Ég setti upp mynd af mér og lét per­sónu­lega muni í kassa, frá barn­æsku, ung­lings­árum og frá málara­námi mínu.

Seinna var ég beðinn um að sýna verkið aftur, og þá á Kjarvals­stöðum, og í það skiptið var ég kon­sept­lista­maður og setti að­eins öðru­vísi muni í kassana. Verkið sem er á sýningunni núna tengist því verki að­eins. Í kassanum eru að þessu sinni alls kyns munir sem tengjast lista­mönnum sem ég hef hitt, snætt með, verið að vinna fyrir eða með. Þarna er til dæmis blýantur sem Birgir Andrés­son mynd­listar­maður rétti mér þegar mig vantaði eitt­hvað til að skrifa með og hanski sem lista­maðurinn Christian Marclay gleymdi þegar hann kom í heim­sókn í stúdíóið til mín og margir fleiri munir.“

Krónur bræddar í heila

Lík­legt er að stór eftir­mynd af lista­manninum muni vekja at­hygli gesta en hana vann Er­ling með Ernst Back­man fyrir tæpum þrettán árum. Þarna er einnig portrettröð þar sem Er­ling blandar and­liti sínu saman við and­lit annarra lista­manna lista­sögunnar, þar á meðal Dieter Roth.

Björn Roth og Sigurður Guð­munds­son koma við sögu í tveimur risa­stórum portrett­mál­verkum. „Þeir stóðu fyrir framan hvítan striga og ég setti mótor­hjól á statíf og málningar­bakka undir aftur­hjólið. Svo gaf ég í og málningin sprautaðist yfir þá.“

Á sýningunni má sjá skúlptúr eftir Er­ling. Þar á meðal er verkið My Mind Makes Mon­ey sem sýnir heila. „Ég tók 10 þúsund ís­lenskar krónur og bræddi og bjó til heila,“ segir Er­ling. Haus­kúpa er síðan gerð úr hrauni úr Eyja­fjalla­jökli. „Árið 2010 fór ég, eins og margir Ís­lendingar, upp að Eyja­fjalla­jökli til að horfa á gosið, tók hraun­mola með mér og ári seinna voru þeir bræddir með log­suðu­tæki og til urðu eins konar hraun­perlur sem þekja yfir­borð haus­kúpunnar.“

Í tengslum við sýninguna kemur út 32 blað­síðna veg­leg sýningar­skrá og í hana skrifa ellefu höfundar hug­leiðingar um verk Erlings auk inn­gangs Dor­ot­hee Kirch.

Meisturum tveim, Jóhannesi Kjarval og Kristjáni Davíðssyni, er stillt saman á sýningunni.