Sýningin Erling Klingenberg stendur yfir í sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang í Marshallhúsinu. Á sýningunni, sem stendur til 26. apríl, er að finna 38 verk frá 25 ára ferli listamannsins. Hátt í níu tonna útiverk blasir við gestum er þeir koma að húsinu.
„Elsta myndin er frá 1994 þegar ég útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum. Ég var þar í málaradeild og fékkst mikið við málverkið en svo fóru mismunandi hugmyndir að kalla á aðra miðla,“ segir Erling, sem hefur sýnt víða, bæði hérlendis og erlendis.
Spurður hvort verkin á sýningunni eigi eitthvað sameiginlegt segir hann: „Algjörlega. Ég er að spá í umhverfið sem listamaðurinn og verk hans finna sig í. Hið nálæga umhverfi, listheiminn og áhrif hans á ytra umhverfið, sýn samfélagsins á listina og manninn á bak við hana og alla þá pólitík sem því fylgir. Hvað hefur áhrif á það hvernig við sjáum hluti og hvað fær að sjást. Ég er líka að velta fyrir mér þeirri ímyndasköpun sem fer í gang.
Verk mín eiga það líka mörg sameiginlegt að ferlið á bak við sköpun þeirra og tengingar ýmsar eru mikilvægari en endanleg útkoma. Endanleg útkoma verður stundum eins konar tálbeita fyrir einhverju allt öðru sem þar liggur að baki.
Þar sem hugmyndirnar sem koma til mín eru að vissu leyti ólíkar, þó þær fylgi ákveðnum slóðum, þá nýti ég ólíka miðla til að koma þeim sem best á framfæri.“
Blýantur Birgis Andréssonar
Meðal verka á sýningunni eru þrjár stórar ljósmyndir af listamanninum á ýmsum aldri og glerkassi sem geymir ýmsa muni. „Á sínum tíma settu Kjarvalsstaðir upp stóra mynd af Kjarval og glerkassa þar sem var meðal annars litapallettan hans og uppáhalds matur. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér hvað gerist þegar listamaðurinn hefur kvatt þennan heim. Hvernig er farið með minningu hans og hvað er hægt að leyfa sér að gera? Hefur sýn okkar á manneskjuna áhrif á það hvernig við sjáum sköpunarverk hans. Þannig að útskriftarverkefni mitt í Myndlista- og handíðaskólanum var í þessum sama dúr. Ég setti upp mynd af mér og lét persónulega muni í kassa, frá barnæsku, unglingsárum og frá málaranámi mínu.
Seinna var ég beðinn um að sýna verkið aftur, og þá á Kjarvalsstöðum, og í það skiptið var ég konseptlistamaður og setti aðeins öðruvísi muni í kassana. Verkið sem er á sýningunni núna tengist því verki aðeins. Í kassanum eru að þessu sinni alls kyns munir sem tengjast listamönnum sem ég hef hitt, snætt með, verið að vinna fyrir eða með. Þarna er til dæmis blýantur sem Birgir Andrésson myndlistarmaður rétti mér þegar mig vantaði eitthvað til að skrifa með og hanski sem listamaðurinn Christian Marclay gleymdi þegar hann kom í heimsókn í stúdíóið til mín og margir fleiri munir.“
Krónur bræddar í heila
Líklegt er að stór eftirmynd af listamanninum muni vekja athygli gesta en hana vann Erling með Ernst Backman fyrir tæpum þrettán árum. Þarna er einnig portrettröð þar sem Erling blandar andliti sínu saman við andlit annarra listamanna listasögunnar, þar á meðal Dieter Roth.
Björn Roth og Sigurður Guðmundsson koma við sögu í tveimur risastórum portrettmálverkum. „Þeir stóðu fyrir framan hvítan striga og ég setti mótorhjól á statíf og málningarbakka undir afturhjólið. Svo gaf ég í og málningin sprautaðist yfir þá.“
Á sýningunni má sjá skúlptúr eftir Erling. Þar á meðal er verkið My Mind Makes Money sem sýnir heila. „Ég tók 10 þúsund íslenskar krónur og bræddi og bjó til heila,“ segir Erling. Hauskúpa er síðan gerð úr hrauni úr Eyjafjallajökli. „Árið 2010 fór ég, eins og margir Íslendingar, upp að Eyjafjallajökli til að horfa á gosið, tók hraunmola með mér og ári seinna voru þeir bræddir með logsuðutæki og til urðu eins konar hraunperlur sem þekja yfirborð hauskúpunnar.“
Í tengslum við sýninguna kemur út 32 blaðsíðna vegleg sýningarskrá og í hana skrifa ellefu höfundar hugleiðingar um verk Erlings auk inngangs Dorothee Kirch.
