Ekki kemur á óvart að Cobra Kai trónir á toppi lista Netflix yfir það efni sem mest er sótt í straum veitunnar þessa dagana. Jafnvel The Crown, með allan sinn meðbyr sem andlát Elísabetar II gefur í seglin, hefur ekki náð að skáka geggjuðu karate-dramanu sem er einfaldlega með því allra besta sem er í boði þessi misserin. Fyrir einhverja undarlega galdra hefur gengið fullkomlega upp að flétta miðaldrakrísu fornfrægra karatekarla saman við unglingadrama sem toppar Beverly Hills 90210 án þess að blása úr nös eða sýna nokkra miskunn.

Sá taglhnýtti djöflamergur, Terry Silver, brýnir krakkana í Cobra Kai til illra verka af aðdáunarveðri einurð og festu og er miklu skæðari andstæðingur en hann var sem vondi kallinn í The Karate Kid Part III fyrir 33 árum.
Mynd/Netflix

Cobra Kai fór feykilvel af stað í fyrstu seríu þegar höfuðandstæðingarnir úr 80’s smellinum Karate Kid, Daniel LaRusso og Johnny Lawrence, taka aftur til við að elda grátt silfur og draga unglingana sína og vini þeirra í stríðið milli karateklúbbanna Cobra Kai og Miyagi-Do.

Þættirnir hafa haldið dampi síðan með kostulegu gríni að eitraðri og úreltri karlmennsku níunda áratugarins, þvottekta 80’s nostalgíu, tilfinningadrama, spennu og karate.

Úthaldið er slíkt að líklega er þessi 5. sería sú besta hingað til og hámhorf á þessa tíu um það bil hálftímalöngu þætti er með öllu óhjákvæmilegt. Einu sinni byrjað, þú getur ekki hætt.

Skúrkarnir eru hreyfiaflið í öllum góðum sögum og þeir John Kreese og Terry Silver slá engin vindhögg í þeim efnum sem miskunnarlausir frumkvöðlarnir að baki Cobra Kai.
Mynd/Netflix

Meginstyrkur þáttanna liggur í því að maður tengir einhvern veginn við allar helstu persónur; miðaldra og ungar, vondar og góðar. Illmenninn ríða þó baggamuninn í þessari umferð með þann snarsikkópatíska Terry Silver í slíkum ham að líf og limir okkar ástkærasta fólks eru í raunverulegri hættu. Maður er grínlaust á taugum í síðustu tveimur þáttunum og getur ekki beðið eftir að fá að sjá og vita meira um afdrif góðra sem slæmra þótt biðin eftir framhaldi verði áreiðanlega í besta falli eitt ár.

Niðurstaða: Cobra Kai er ótrúlega vel heppnaður bragðarefur úr Karate Kid nostalgíu níunda áratugarins og unglingaspennudrama sem er auðveldlega á pari við Beverly Hills 90210 sem kann að ráða mestu um að líklega er stærsti og ákafasti áhorfendahópurinn að komast á sextugsaldurinn.