„Ég var alltaf staðráðin í að fermast. Það kom aldrei neitt annað til greina. Ég tók það mjög alvarlega og fermingarfræðslan vakti áhuga minn á prestsstarfinu. Mér fannst gaman að fara í messur og hlusta á prestinn tala, og fannst þetta allt bæði spennandi og skemmtilegt,“ segir séra Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju.

Jónína fermdist á sjómannadaginn árið 1998.

„Við fjölskyldan bjuggum í skólaþyrpingunni við Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði þar sem pabbi var skólastjóri og mamma leikskólakennari. Bekkurinn minn var lítill og þennan sjómannadag vorum við tvö sem fermdumst saman í kirkjunni á Hálsi í Fnjóskadal. Þetta var mikill hátíðisdagur og auðvitað var ég upptekin af veislunni og pökkunum eins og vera bera á þessum aldri, en fermingin styrkti mig enn meira í trúnni. Ég trúði á Guð og trúi enn á Guð og er mjög viss í minni trú,“ segir séra Jónína.

Maður finnur til sín á þessum degi og ég fann hvað ég átti marga að sem þótti vænt um mig.

Hún á góðar minningar frá fermingardeginum.

„Ég fékk fermingargjöfina sem ég óskaði mér, forláta skrifborð og bókahillu í stíl; húsgögn sem fylgdu mér langt fram á fullorðinsár. Ég vildi gera herbergið mitt flott og fékk pabba til að mála veggina appelsínugula með grænum veggfóðursborða upp við loftið, sem mér fannst æðislegt á þeim tíma – eins undarlegt og það hljómar núna. Stundum er sagt að við fermingu sé maður kominn í fullorðinna manna tölu og ég upplifði mig þroskaðri og nær því að vera fullorðna, sem var spennandi. Ég átti líka í miklum samningaviðræðum við mömmu og pabba um áprentuðu fermingarservíetturnar. Ég var jú skírð Jónína en hef verið kölluð Nína frá því ég fæddist og hef alltaf tengt mig meira við Nínu-nafnið. Á endanum hafði ég síðasta orðið, fékk Nínu prentaða á servíetturnar og var mjög ánægð að ná þessu fram,“ segir Nína og brosir að minningunni.

Hún segist ekki hefði viljað missa af fermingardeginum sínum.

„Mér fannst góð tilfinning að fermast og gaman að allir mínir nánustu kæmu til að gleðjast með mér. Maður finnur til sín á þessum degi og ég fann hvað ég átti marga að sem þótti vænt um mig. Konur komu austan af landi með fermingartertu sem þær bökuðu og gáfu mér, sem var dásamlegt. Í minningunni var ég afskaplega ánægð með daginn og þakklát. Börnum þykir svo gaman þegar vinir og ættingjar koma saman og gleðjast. Það segir okkur að kærleikurinn og samveran stendur upp úr á fermingardaginn, og þannig upplifir maður einmitt boðskapinn sem tengist fermingunni sjálfri. Á fermingardaginn er verið að fagna þínu lífi, þú ert miðpunkturinn og langflestir halda veislu til að gleðjast saman. Þetta eru hálfgerð jól, með pökkum, veislumat og samveru með manns nánustu!“ segir Jónína kát.

Séra Jónína var glæsileg á fermingardaginn sinn sem var á sjómannadaginn árið 1998. MYND/ÚR EINKASAFNI

Altarisgangan spennandi

Í ár fermast um 80 fermingarbörn í Hafnarfjarðarkirkju. Fyrsta fermingin fer fram á pálmasunnudag og sú síðasta á sjómannadaginn, en sá dagur er alltaf haldinn hátíðlegur í hafnarbænum Hafnarfirði.

„Fermingarfræðslan hefur gengið vel. Unglingarnir eru lífsgleðin uppmáluð og virkir þátttakendur. Flest eru mjög fróðleiksfús og drekka í sig efnið, hafa mikinn áhuga á sögum Biblíunnar og Jesú Kristi, hver hann var og hvað hann gerði. Svo vakna alltaf stórar spurningar um upprisuna og líf eftir dauðann. Þá er altarisgangan spennandi, að drekka (óáfengt) vín og bragða á þessu skrýtna brauði sem oblátan er, en saman táknar það blóð og líkama Krists,“ upplýsir séra Jónína.

Í fermingunni staðfesta fermingarbörnin skírn sína í Jesú Kristi og gangast við því að hafa hann að leiðtoga lífs síns.

„Það er gott að hvíla í því þegar líður á ævina,“ segir séra Jónína. „Að vita til þess að við viljum fara að fordæmi Jesú Krists í kærleika, lifnaðarháttum og framkomu við annað fólk. Boðskapur Krists er einstaklega fallegur og það er gott að tileinka sér hann sem veganesti út í lífið. Við tölum um trúna og Jesú sem elskar okkur öll eins og við erum, og að hvert og eitt okkar sé mikilvægt. Að við skiptum öll jafn miklu máli, eigum öll okkar rétt á tilvist og tilveru. Börnin eru líka mjög áhugasöm um kirkjuna, sem við eigum öll saman. Hún heldur utan um okkur og mun gera áfram á stærstu stundum okkar á lífsleiðinni. Kirkjan er öruggt athvarf sem þau upplifa og verða áskynja í fermingarfræðslunni, og þar leggjum við okkur fram um að vera kurteis við unglingana sem eru til fyrirmyndar og prúðir og kurteisir á móti.“

Senn líður að fyrstu fermingu ársins í Hafnarfjarðarkirkju og segir séra Jónína mikla tilhlökkun í loftinu.

„Fermingarbörnin eru alltaf svolítið stressuð yfir því að þurfa að læra trúarjátninguna sem við leggjum áherslu á að þau kunni,, sem og bænina Faðir vor, en sum kunnu ekki bænina þegar þau komu fyrst í fermingarfræðsluna. Einhver eru stressuð yfir því að fara með ritningarorðin eins síns liðs í athöfninni en það er óþarfa stress því við segjum versin með þeim og bæði trúarjátningin og Faðir vor verða á sálmaskrá sem þau geta lesið.“

Hún segir bænina vera haldreipi í lífsins ólgusjó.

„Við getum alltaf leitað í trúna og bænina og í fermingarfræðslunni æfum við okkur að fara með bænir frá eigin brjósti. Það er unglingunum líka mikilvægt að vita að þau geti alltaf leitað í kirkjuna sína og til prestsins síns og okkur finnst skipta miklu máli að þau kynnist okkur starfsfólkinu og prestunum vel í Hafnarfjarðarkirkju.

Kirkjudyrnar standa alltaf opnar og eins er það með trúna sem tekur á móti okkur opnum örmum ef við viljum vitja hennar.

Kirkja full af hamingju og gleði

Séra Jónína er full tilhlökkunar fyrir fermingartímanum sem senn fer í hönd.

„Á fermingardögum er mikil orka í kirkjunni sem jafnan er troðfull af hamingjusömu fólki. Mér finnst óskaplega gaman að ferma krakkana, þetta er svo mikil hátíð og maður finnur hvað þeim þykir þetta stórt. Andrúmsloftið er þrungið eftirvæntingu og ánægju, og allir svo prúðbúnir. Maður skynjar líka stolt og smitandi gleði fjölskyldunnar.“

Veganesti séra Jónínu til fermingarbarna út í lífið er:

„Að vera við sjálf og óhrædd við að segja okkar skoðun. Þegar við erum fjórtán ára er margt í gangi í heilanum og alls konar áhyggjur og vangaveltur um hvernig við lítum út, hvort við séum hip og kúl eða hallærisleg. Við eigum að vera ánægð með okkur eins og við erum því við erum öll góð einmitt einsog við erum, og ekki öðruvísi. Að hvíla örugg í því að við erum öll jafn mikilvæg og einblína á að vera örugg í okkur sjálfum alla daga og út allt lífið.“

Hún talar líka til foreldra á fermingardaginn.

„Það er stórt hlutverk að vera uppalandi og ætla að vernda börnin en komast að því að það er ekki alltaf hægt. Öll upplifum við að gera mistök en þá er hægt að læra af þeim og gera þau ekki aftur, og vita að enginn er útskúfaður þótt hann geri mistök.. Við eigum alltaf leið til baka og sú leið snýst líka um að við fyrirgefum okkur sjálfum, sem oft strandar á. Kirkjudyrnar standa alltaf opnar og eins er það með trúna sem tekur á móti okkur opnum örmum ef við viljum vitja hennar.“

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023