Syni Maríu, Reyni Leo, sem einungis er 8 ára hafði dreymt um það síðan í vetur að fá að smíða kofa á smíðanámskeiði skáta í sumar og gera úr honum bakarí. „Auðvitað gladdi það bloggaramömmuna mikið að sonurinn deildi áhugamáli hennar í bakstrinum og ákvað ég því strax að ég myndi hjálpa honum að láta þennan langþráða draum sinn rætast,“ segir María.

Baksturinn var vel heppnaður enda kláraðist allt saman.

Elskuðu að vera búðarfólk

Kofinn var kominn í hús og nú var ekkert eftir nema að henda í nokkrar góðar uppskriftir sem teknar voru af bloggsíðu móðurinnar. „Dagurinn var yndislegur, fjölmargir mættu og voru langar raðir allan tímann. Bakkelsið kláraðist fyrr en vonast var til og þurftu því nokkrir að hörfa frá tómhentir, því miður, þrátt fyrir mikið magn sem var í boði,“ segir María. „Fólk er svo yndislegt að sýna samhug og styðja við draum lítils drengs og gera sér ferð til að taka þátt og kaupa af honum og systkinum hans sem stóðu vaktina og elskuðu að fá að vera búðarfólk í einn dag.

Börnin voru búin að leggja á sig ómælda vinnu fyrir þennan dag, bræðurnir smíðuðu saman kofann á smíðanámskeiði Vífils og búið er að sitja við og perla til að skreyta kofann, negla og smíða enn meira til að laga kofann og allt þeirra líf hefur snúist um þetta síðustu daga, gleðin og spennan var því mikil og var stóri dagurinn hreint út sagt dásamlegur.“

Ekki amalegt að kaupa bakkelsi í minnsta bakaríi landsins.

Bakkelsi og kræsingar fyrir alla

Boðið var upp á Brauð og Co snúða replicu, djúsí pizzasnúða, gömlu góðu skúffukökuna með glassúr og kókos, mjúkar Pretzel saltkringlur, Oreo- og súkkulaðibitasmákökur og æðislega hafraklatta. „Margir höfðu orð á því hversu gaman væri að sjá börn framkvæma óskir sínar. Þetta minnti fólk á hvernig börn léku sér í gamla daga þegar haldnar voru tombólur fyrir tíma tölvuleikja. Börnin voru alsæl og útkeyrð eftir daginn og erum við foreldrarnir þakklát fyrir allt það yndislega fólk sem gaf sér tíma til að koma og taka þátt í draumnum.“