Fyrrverandi sjónvarpsstjarna að nafni Catherine Ommanney sem gerði garðinn frægan í raunveruleikaþáttunum Real Housewives of D.C, segir frá ástríðufullum kynnum við Harry Bretaprins, í samtali við götublaðið The Sun. Var prinsinn þá 21 árs og hún 34 ára. Catherine sagðist vera að tjá sig um málið vegna væntanlegrar útgáfu endurminninga Harrys í bók sem ber titilinn Spare. Bókin kemur út þann 10. janúar.

Fyrrverandi sjónvarpsstjarnan segist þó efast um að á hana verði minnst í bókinni. „Ég efast um að mín verði getið í bókinni, sérstaklega í ljósi þess að prins getur ekki hlaupist á brott með 34 ára, tveggja barna móður,“ sagði Catherine, sem er fimmtug í dag. „Það tíðkast bara ekki.“

Catherine var nýfráskilin á þeim tíma sem hún og Harry eiga að hafa hist. Hún segir kynnin hafa verið á bar í London í maí 2006 í gegnum sameiginlega vini. „Harry var með svona ástralskan hatt sem fékk mig til að skellihlæja. Ég spurði hann af hverju hann væri klæddur eins og hálfviti. Ég held að hann hafi ekki verið vanur því að fólk væri að grínast svona í honum. Þegar við byrjuðum að tala saman varð skyndilega eins og enginn annar væri í herberginu,“ segir hún.

Catherine segir að í framhaldinu hafi þau farið heim til vinafólks þar sem Harry lagaði handa henni beikonsamloku, og síðan hafi þau farið í gamnislag. „Ég sagði honum að ég þyrfti að fara heim og þá lyfti hann mér upp af gólfinu, hélt mér upp að veggnum og gaf mér ástríðufyllsta, ótrúlegasta koss sem ég hef fengið á ævinni.“