Ashley Judd minnist móður sinnar í tilefni af mæðradeginum sem haldinn er alþjóðlega í dag en móðir hennar lést þann 30. apríl, fyrir rúmri viku.

Í aðsendri grein sem hún skrifar fyrir USA Today segir hún að móðir hennar hafi látist aðeins nokkrum klukkustundum áður en jafningjar hennar ætluðu að veita henni virðingarvott í Country Music Hall of Fame en móðir hennar, Naomi Judd, var þekkt sveitatónlistasöngkona í Bandaríkjunum.

„Þetta átti ekki að vera svona. Ég átti að heimsækja hana á sunnudaginn, til að gefa henni kassa af nammi, það var fjölskylduhefðin. Við áttum að njóta samveru hvorrar annarrar. En í stað þess er ég að losna frá. En hjarta mitt er ekki tómt. Það er ríkulega búið af þakklæti yfir því sem hún skilur eftir sig. Uppeldi hennar og blíða, tónlistin hennar og minningin,“ segir Judd í grein sinni.

Hún segir að hún sé þó á sama tíma full af reiði, vegna þess að geðsjúkdómar hafi stolið móður hennar frá henni og að það megi rekja til sára sem móðir hennar fékk sem lítil stúlka.

Vill að betur sé hugsað um mæður

Judd kallar eftir því í grein sinni að betur sé hugsað um mæður en á hverjum degi má rekja um 800 dauðsföll kvenna um allan heim af kvillum sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Hún nefnir einnig mæðurnar sem fara til vinnu en eru ekki tilbúnar, andlega eða líkamlega, og svo megi ekki gleyma þeim mikla fjölda sem deyr í kjölfar ofbeldis, af hendi maka eða annars náins aðila.

Judd kallar eftir því í grein sinni að betur sé komið fram við konur og fjallar meðal annars um réttinn til þess að stjórna eigin líkama en málið er auðvitað til umræðu í Bandaríkjunum þar sem möguleiki er á að Hæstiréttur snúi við úrskurði Roe v. Wade sem gerði konum kleift að fá fóstureyðingar um gjörvöll Bandaríkin ef þær óskuðu þess.

Judd lýkur grein sinni á því að biðja fólk um að heiðra mæður sínar í tilefni dagsins.

„Heiðraðu hana fyrir meira en vinnu hennar og fórnir. Heiðraðu hana fyrir hæfileika hennar og drauma. Heiðraðu hana með því að krefjast þess að móðurhlutverkið, verði alls staðar, öruggt, heilbrigt og það sem þær völdu.“

Greinina er hægt að lesa hér.