Loji Höskuldsson sýnir fjórtán útsaumsverk á sýningunni Súper lókal í Hverfisgalleríi Hverfisgötu. Spurður um efnið sem hann notar í útsauminn segir hann: „Ég nota venjulegt garn. Ég hef prófað pólýester og bómull en ullin finnst mér henta best og gefa skemmtilegustu áferðina. Ég lita ekki sjálfur heldur kaupi litað garn. Kannski kemst ég einn daginn á þá skoðun að það sé algjörlega nauðsynlegt að ég liti allt saman sjálfur. Hugmynd að mynd fæðist líka oft út frá litnum eða áferðinni á garninu. Einhvern tímann gaf mamma mér ótrúlega ljótt garn og úr varð myndin Hlöllabáts-æla í Austurstræti.“

Hvetjandi viðbrögð

Spurður hvenær áhugi hans á útsaumi hafi vaknað segir hann að það hafi gerst tiltölulega seint. „Ég var í Listaháskólanum og var að prófa alls konar hluti, gerði gjörninga og málaði. Ég var að fara austur á Seyðisfjörð á tveggja vikna námskeið og sagði við mömmu að mig langaði til að gera útsaum. Hún rétti mér flosnál, sem er nál sem virkar dálítið eins og rjómaþeytari, maður þræðir hana og snýr. Þegar ég fékk þessa nál gjörbreyttust áherslurnar. Þarna var ég kominn með tæki sem var millistykki milli mín og verksins. Árið 2010 fóru fyrstu verkin að verða til.“

Hugmynd að mynd fæðist líka oft út frá litnum eða áferðinni á garninu, segir Loji. Fréttablaðið/Ernir

Hann segist fá sterk viðbrögð við verkunum. „Viðbrögðin einkennast af þakklæti og verkin kæta fólk. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir viðbrögðin og það hversu vel fólk tengir við verkin. Þessar viðtökur virka mjög hvetjandi á mig.“

Góðar minningar

Spurður hvort skilaboð sé að finna í verkunum segir hann: „Þjóðfélagsrýni er ekki inngangspunkturinn í verkunum en verður samt stundum útgangspunktur. Ég gerði eitt sinn verk sem sýndi fíflabreiðu. Myndin átti að vera frá útihátíð í Galtalæk, ég vildi hafa bláan lit í henni og appelsínugulan og svo vildi ég hafa þar Bónuspoka. Þegar ég var að gera myndina tilkynnti Bónus þá ætlan sína að taka plastpoka úr sölu. Á þeirri stundu breyttist titill myndarinnar og varð Síðasti Bónus plastpokinn.

Þessi sýning heitir Súper lókal af því að þar eru portrett af minningum mínum um Reykjavík. Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af þessari borg og hef mikinn áhuga á borgarskipulagi og arkitektúr.“

Alls kyns vörumerki og heiti eru áberandi í myndunum, þar á meðal Kjörís, Hörpusilki og blár Ópal. „Ég ólst upp í Álfheimunum og Kjörísmyndin er óður til Álfheimaísbúðarinnar. Ég vann í Hörpu Sjöfn og fannst málningardollurnar þeirra mjög flottar og á nokkrar heima. Fyrir mér eru þetta góðar minningar,“ segir Loji.