Þrátt fyrir að Plómur sé fyrsta ljóðabók Sunnu Dísar er hún langt frá því að vera byrjendahöfundur þar sem hún hefur áður tekið þátt í þremur ljóðabókum og skáldsögunni Olíu með ljóðakollektívinu Svikaskáldum sem var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021.
Um viðfangsefni bókarinnar segir hún að minningar frá fyrri tíð séu helsti innblásturinn. „Ég flutti sem sagt til Svíþjóðar þegar ég var fimmtán ára og byrjaði í sænskum menntaskóla tveimur vikum síðar, alveg ótalandi, og bjó síðan þar úti í fjögur ár.
Þetta eru ljóð sem eiga sér fyrirmyndir úr gömlum dagbókum frá mér,“ segir Sunna Dís sem hitti blaðamann í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu en þar er aðsetur Svikaskálda.
Að mati Sunnu Dísar er bókin ferðalag aftur í tímann og tilraun til þess að endurvekja þessa dvöl sem hafði mikil áhrif á á hana.
„Kjarninn í þessari bók er samband við vinkonu sem var svo erfitt að skilgreina á sínum tíma. Þegar maður er unglingur og að fóta sig í nýju landi og nýju tungumáli og nýrri vináttu og nýjum samböndum. Ég er í raun ekki enn viss um það hvernig ég myndi skilgreina þetta samband en þessi ljóðabók er kannski tilraun til þess að takast á við það,“ segir hún.
Þetta eru svo miklar og stórar tilfinningar og það er allt svo ofboðslega viðkvæmt á þessum tíma og mér finnst svo mikil fegurð í því.
Ungar en stórar tilfinningar
Tíminn sem Sunna Dís tekst á við er tími sem margir lesendur ættu að kannast við úr eigin lífi. Þegar hver dagur virðist byrja og enda heila ævi og stórar tilfinningar geta flækst fyrir skilningi manns á veröldinni.
„Mig langaði að fara alveg inn í unglingadramatíkina með þessari bók,“ segir Sunnar Dís sem á í samræðu við sitt fyrra sjálf í bókinni.
„Þetta eru svo miklar og stórar tilfinningar og það er allt svo ofboðslega viðkvæmt á þessum tíma og mér finnst svo mikil fegurð í því. Þannig langaði mig ekki bara að yrkja um þennan tíma og þessar upplifanir frá mínum sjónarhóli núna tuttugu árum seinna. Mig langaði frekar að fara beint inn í kvikuna þar sem allt er bæði það besta sem getur komið fyrir þig og hrikalega þrúgandi um leið. Það er svo frjór staður til að vera á.“

Sjálfsprottin náttúra
Frjósemi er stór partur af bókinni en ljóðin eru mörg hver uppfull af náttúru sem sprettur og hverfist um ljóðmælandann og teiknar upp sterkar myndir af umhverfinu. Sunna Dís segir að náttúran í bókinni sé að vissu leyti sjálfsprottin.
„Bókin kom bara þannig til mín,“ segir hún. „Þetta er efni sem ég er búin að bera með mér lengi og hafði í raun aldrei almennilega fundið leiðina að því eða hvað ég vildi gera við það. Fyrsta ljóðið sem ég skrifaði heitir Mold þar sem hrúga af plómum er að rotna. Það varð inngangurinn að þessu öllu saman. Stundum bíður maður bara eftir einhverjum glugga sem opnast.“
Sunna Dís segir að náttúran hafi þannig læðst inn um þennan opna glugga. „Þegar hún var komin þá fann ég að þetta var umhverfið sem ég vildi vera í,“ segir hún.
„Því það að flytja á milli landa, jafnvel þó að það sé ekki meira framandi staður en Skandinavía, stækkar og víkkar heiminn svo mikið. Að kynnast nýjum hlutum. Eins og fyrsta skiptið sem ég sá eplatré í blóma þá stóð ég á öndinni. Ég hafði auðvitað séð myndir og teikningar af þeim og vissi að þau blómstruðu en þegar ég sá það átti ég í raun ekki til orð yfir hvað það var fallegt.“
Skáldaðar minningar
Sunna Dís segir að fyrir henni sé skáldskapur langáhugaverðasta leiðin til að takast á við minningar eins og þessar.
„Ég las um daginn að þegar maður skrifar um minningar þá sé sannleikurinn í raun tilfinningin eða tryggðin við upplifun manneskjunnar sem var þá. Það er satt. Alveg sama hvort maður hafi gleymt einhverju nákvæmu um tímasetningar eða jafnvel að maður hafi upplifað eitthvað á allt annan hátt heldur en manneskjan sem maður var með á þeirri stundu. Mér finnst þetta svo mikill kjarni. Það er það sem ég er að vinna með í þessari bók.“
