Tónlistarmaðurinn Halldór Eldjárn gefur í dag út fyrsta lagið af væntanlegri plötu. Lagið fékk titilinn Gleymmérei og er samið af honum og tónlistarkonunni GDRN, Guðrúnu Eyfjörð.

Halldór segir lagið fjalla um það hvernig minningar eiga það til að skjóta upp kollinum þegar maður finnur gamlar myndir eða upptökur.

„Það kannski eiga allir sína Gleymmérei í einhverjum skilningi,“ segir Halldór en hugmyndina að laginu fékk hann þegar hann rótaði í gömlum upptökum og fann kasettuupptöku úr fyrsta píanótímanum sínum en hann segir að amma hans hafi kennt honum á píanó.

„Ég byrja hugmyndavinnuna oft á svona róti. Í raftónlist er erfitt að byrja með eitt lag og mér finnst gott að fara í gegnum gamlar upptökur eða fara út að taka upp hljóð til að koma mér af stað. Það byrjar sem efniviður sem maður hleður á og gefur sál í raftónlistina. Ég tók upptökuna og bakaði hana og teygði með alls konar hljóðeffektum, sem varð grunnurinn að laginu. Guðrún kom svo og samdi laglínu og texta með mér og söng svo yfir lagið.“

Halldór segir að þau hafi svo ákveðið að fara alla leið með útgáfuna og gefið út myndband sem er tekið upp á 8 og 16 millimetra kvikmyndafilmu.

GDRN syngur og semur lagið með Halldóri.
Mynd/aðsend

„Til að fá þetta gamla lúkk sem passar svo vel við lagið og efni lagsins. Efnið kannski lítur út fyrir að vera gamalt, jafnvel 30 ára gamalt, en var tekið upp síðasta sumar.“

Í myndbandinu má sjá mann finna gamla filmu og myndbandið á henni. Í myndbandinu leika þau leika Kristján Franklín Magnús, Anna Róshildur Benediktsdóttir Bøving og Nikulás Hansen Daðason.

„Við vissum að það ætti að vera virðulegur maður í aðalhlutverki og eftir nokkra umhugsun var Kristján Franklín sá eini sem kom til greina. Hann tók bara vel í þetta,“ segir Halldór.

Myndbönd við lög eru ekki eins algeng og þau voru fyrir um tuttugu árum.

„Þetta auðvitað var rútínan, fyrir tuttugu árum, fyrir meðalungling að koma heim eftir skóla og horfa á Popp Tíví og Skjá einn og horfa aftur og aftur á sama stöffið. Sá tími er alveg búinn og í raun enginn miðill í dag sérstaklega fyrir þetta efni eins og þá. Í dag er þetta meira reels og TikTok en við litum meira á þetta eins og pínulitla bíómynd.“

Lagið kemur formlega út í dag og er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum og myndbandið verður birt á hádegi. Platan er að sögn Halldórs svo væntanleg með haustinu.

„Platan er í vinnslu. Það má búast við streng af útgáfum áður en hún kemur út.“