Vía út­gáfa gefur nú út, fyrir næsta ár, daga­tal þar sem lögð er á­hersla á merki­lega daga sem snerta konur og jaðar­setta hópa. Elinóra Guð­munds­dóttir, stofnandi og eig­andi Vía, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að með þessari nýjung sé lögð á­hersla á að fagna þeim sem áður hafa verið falin. Daga­talið er hannað af Ás­gerði Heimis­dóttur en Berg­lind Brá Jóhanns­dóttir sá um um­brot.

„Við höfum, í sam­starfi við Kvenna­sögu­safnið, safnað saman mikil­vægum dögum í jafn­réttis­bar­áttu kvenna, fatlaðra, hin­segin og annarra jaðar­settra. Þetta eru dagar sem okkur finnst gleymast og þarna eru þeir allir á einum stað. Okkur fannst þetta per­sónu­lega vanta, það er svo margt sem er falið sem snertir konur og jaðar­setta hópa og með þessu getum við lyft því upp sem var áður falið. Þetta eru dagar sem við eigum að muna, þekkja og fagna,“ segir Elinóra.

Hún segir að á daga­talinu sé QR kóði þar sem fólk er leitt inn á vef­síðuna þeirra þar sem hægt er að lesa meira um þá daga og fólk sem er á daga­talinu.

Hver mánuður er myndskreyttur með mynd sem tengist því sem gerist í þeim mánuði.
Mynd/Aðsend

Tilvalið í jólapakkann

Daga­talið er skreytt verkum eftir lista­fólk á Upp­skeru lista­markaðs þar á meðal Öldu Lilju, Hildi­gunni Sig­valda, Söru Höskulds, Unu Hall­gríms, Her­dill, Ás­björn, Þór­hönnu Ingu, Birgittu Rúnars, Sól­rúnu Ylfu, Selmu Björk Kristjáns­dóttur, Tinnu Eik og Ás­gerði Heimis.

„Þau skreyttu hvern mánuði í sam­ræmi við þemað. Þetta er allt lista­fólk sem hefur starfað með okkur í gegnum súrt og sætt þannig þetta er mikið sam­vinnu­verk­efni.“

Hún segir að auð­velt sé að taka daga­talið af hringjunum og þannig sé hægt að taka myndirnar og nýta þær einar og sér þegar mánuðurinn er liðinn.

Elinóra segir að daga­talið sé til­valin við­bót við jóla­pakkann en það er hægt að fá það á vef Upp­skeru lista­markaðar hér.

„Þetta er jóla­pakka­vænt verð, á 4.990 krónur,“ segir Elinóra létt að lokum.