Lilja Dís er 25 ára, fædd og uppalin í Garðabæ, og hefur áhuga á öllu milli himins og jarðar. „Ég starfa sjálfstætt sem förðunarfræðingur, hef mikinn áhuga á förðun, tísku, heilsu, matreiðslu og svo finnst mér mjög gaman að pæla í hegðun og líðan fólks.“

Þá er aldrei langt í glensið. „Ég er mikill húmoristi og elska að hlæja og hafa gaman.“

Basic look kryddað

Lilja segir áhuga sinn á tísku hafa aukist með árunum. Þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sínum segist hún gjarnan klæðast tiltölulega látlausum fatnaði en noti svo fylgihluti eða jafnvel förðun til að setja punktinn yfir i-ið. „Mér finnst gaman að blanda saman og kaupa mér bæði nýtt og notað. Er mest í svörtu en elska líka drapplitað og mosagrænt. Vinn mikið með „basic look“ en krydda það með t.d. skarti, litríkum jökkum, töskum, sólgleraugum eða einfaldlega bara fallegri förðun.“

Eyðirðu miklu í föt?

„Ég reyni að vera skynsöm, legg meira upp úr því að kaupa mér frekar færri og vandaðri flíkur.“

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku og útliti?

„Ég á oft erfitt með mig þegar ég sé fallega strigaskó.“

Lilja Dís hvetur fólk til þess að þrífa vel förðunarbursta og vera óhrædd við að prófa nýja hluti.

Gleymir tímanum við förðun

Blaðamaður spyr Lilju að því hvenær áhuginn á förðun hafi kviknað. „Áhuginn minn byrjaði við fermingaraldurinn, ég var alltaf að leika mér með það litla makeup sem ég átti þá. Sat oft við spegilinn að mála mig í marga klukkutíma og geri það reyndar enn í dag. Ég gleymi oft alveg tímanum þegar ég er að mála sjálfa mig. Það sem ég elska við makeup er hvað hugtakið er vítt, það er svo ótrúlega margt hægt að gera.“

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa við förðun?

„Mig hafði lengi dreymt um að verða förðunarfræðingur en það stoppaði mig alltaf hversu margir útskrifaðir förðunarfræðingar voru á Íslandi. Þegar Makeup-Stúdíó Hörpu Kára var opnað þá sá ég mitt tækifæri og lét verða af því að skrá mig í námið. Eftir útskrift fór svo boltinn að rúlla. Harpa er mín fyrirmynd þegar kemur að makeupi.“

Hvar færðu innblástur?

„Á Instagram aðallega en svo er ég líka dugleg að prófa mig áfram sjálf.“

Lilja Dís segir það hafa verið ótrúlegt að fylgjast með tökum á erlendum sjónvarpsþáttum og sjá hversu mikil vinna liggur þar að baki. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Magnað að kíkja á bak við myndavélarnar

Lilja hefur nú þegar komið að fjölda verkefna í starfi sínu sem förðunarfræðingur. Hún segir hægara sagt en gert að velja eitthvað eitt sem standi upp úr en nefnir þó tvö verkefni sem séu sérstaklega eftirminnileg.

„Mörg verkefni sem ég hef farið í standa upp úr og eru þau öll mjög skemmtileg á sinn hátt. Ég hef mest unnið við auglýsinga- og stúdíómyndatökur. Það sem stendur kannski mest upp úr eru tvö stór verkefni. Þar á meðal auglýsingaherferð úti á landi með nokkrum af bestu íþróttamönnum og -konum í Evrópu, einnig tók ég þátt í að farða fyrir erlenda þáttaseríu hér á Íslandi. Það var risastórt verkefni og magnað að sjá það sem gerist bak við myndavélarnar, ég trúði oft ekki mínum eigin augum. Það er ótrúlegt hversu mikið er lagt í framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis.“

Lumarðu á einhverjum ráðum fyrir þau sem vilja einfalda förðunarrútínu?

„Mitt ráð er: hafðu góðan raka og undirbúðu húðina vel áður en þú byrjar. Þrífa förðunarbursta og svampa reglulega! Það getur haft slæm áhrif á förðunina ef maður er með óhreina bursta. Annars bara þetta gamla góða „less is more“ en svo er líka alveg gaman að fara yfir strikið,“ segir Lilja og hlær.

„Ég myndi vilja sjá meira af ljómandi húð, kinnalit, náttúrulegar augabrúnir, glossy varir, litaða augnblýanta og jafnvel litaða maskara. Ég hvet fólk til þess að prófa að fara út fyrir sínar venjulegu hefðir því maður getur orðið mjög vanafastur þegar kemur að förðun.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég ætla að vinna í sumar og langar svo að bæta við mig þekkingu, draumurinn er að fara í nám í útlöndum tengt förðun eða tískubransanum.“

Áttu þér eitthvað mottó?

„Vera jákvæð, einlæg og gera alltaf mitt besta.“

Hægt er að fylgjast með Lilju Dís á Instagram undir: liljadissmara