Jólahátíðin er uppáhaldstími margra og einn fallegasti tími ársins. Hægt er að skreyta og lífga upp á dimmasta skammdegið með fallegum jólaljósum og hlýjum hlutum sem ylja og brjóta upp hversdagsleikann.

Inga Bryndís Jónsdóttir, fagurkeri og stílisti með meiru, hefur ávallt haft mikinn áhuga á því sem viðkemur heimili og hönnun. Stíllinn hennar er mínímalískur og hlýlegur þar sem hver hlutur fær að njóta sín. Gaman er að sjá hvernig henni tekst að halda sínum stíl í jólaskreytingunum og hver hlutur fær að halda sínum karakter.

Borðstofan er stílhrein og borðið prýðir hlýr ólífugrænn litur sem kemur vel út með jólaþemanu. Gluggarnir eru skreytir með einföldum krönsum úr basti og yfirbragðið er látlaust.

Inga og eiginmaður hennar búa í einstaklega fallegu húsi ofarlega á Skólavörðustígnum í nánd við Hallgrímskirkju, húsi með sál. Skólavörðustígurinn nýtur sín vel í jólabúningnum og rómantísk jólastemning ríkir á heimili Ingu.

„Jólin er sá tími sem auðvelt er að vera skapandi, því þau gefa tóninn með öllu því fallegasta og besta sem hægt er að hugsa sér á þessum árstíma. Það er greni, könglar, bjöllur og kryddaður jólailmur,“ segir Inga Bryndís. Hún segist ávallt hafa haft gaman af því að skapa og búa til stemningu og á það líka við ólíkar árstíðir og hátíðir eins og jólin.

„Það er varla til meira jólabarn í allri veröldinni en ég. Nándin við Hallgrímskirkju hefur alla tíð gefið mér mikinn innblástur í öllu sem ég geri. Þemað í ár er jól í Marokkó, þar sem marokkóskt handverk og íslensk jól magna upp ævintýralega stemningu.“

Marokkóskt þema er í borðbúnaðinum þar sem einfaldleikinn ræður för.

Hlutirnir sem fanga auga Ingu og laða hana að sjá um að veita henni innblástur fyrir sköpun og skreytingar. Frumleikinn er oft til staðar og Inga er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir þegar kemur að því að skreyta á einfaldan hátt, svo einfaldan að það er hreinlega ótrúlegt hvað henni tekst vel til við að láta hlutina njóta sína og tala sínu máli. „Innblásturinn verður til þegar ég sé fallegan hlut sem höfðar til mín og mig langar til að gera eitthvað meira með skreytingarnar.“

Greni og könglar eru ríkjandi í jólaskreytingum Ingu og fá að gleðja augað í öllum rýmum.

Inga segist ávallt vera með lifandi jólatré, án þess geti hún ekki verið. „Lifandi og sígræn grenitré koma einungis til greina. Jólatréð er tákn um lífsins tré, sem ilmar og gefur grósku, engin tvö tré eru eins og hvert og eitt þeirra færir okkur vissu um nýtt upphaf og trú á lífið og tilveruna,“ segir Inga hughrifin af anda jólanna sem kominn er í húsið hennar.

Gamlar handgerðar bjöllur eru hluti af borðskrautinu, festar á fallegar, svartar hörservíettur með smá greni, mínímalískt og tímalaust.
Inga hefur mikla ástríðu fyrir fallegum vösum og eru þeir nokkrir í húsinu þar sem grænt jólagreni fær að njóta sín.
Fagurlega skreyttur krans tekur á móti gestum í forstofunni við hlið vasans.
Stjörnur úr smíðajárni heilla Ingu líka og þar er eina að finna í glugganum sem snýr út á Skólavörðustíginn.
Stórar og miklar svalir fylgja húsinu og þar er stórt og fallegt ólífugrænt borð sem Inga nýtir fyrir borðskreytingar með kertum og greni.