Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra skrifaði einlæga færslu á Facebook í vikunni um fyrstu sex mánuði í lífi sonar hennar og Einars Þorsteinssonar, formanns borgarráðs sem hafa reynst henni erfiðir.

„Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort og hvað ég ætti að segja um þessa sex mánuði. Mér finnst við einfaldlega tala alltof lítið um það hvað fyrstu mánuðirnir geta verið erfiðir.

Fyndið hvað ég eyddi miklum tíma af mínum fullorðinsárum að kvíða því að fæða barn. Aldrei hvarflaði það að mér að allt það sem myndi gerast EFTIR fæðinguna yrði margfalt erfiðara en sjálf fæðingin,“ segir Milla og heldur áfram:

„Daginn sem við fengum húsið okkar afhent greindist ég með meðgöngueitrun og var sett af stað þremur vikum fyrir tímann. Í kjölfarið kom í ljós hjartabilun hjá mér og vökvasöfnun á lungu og önnur líffæri. Svo til að kóróna allt þá fékk ég nýrnasteinakast ofan í þetta sem kom hressilega á óvart. Af fyrstu 10 dögum Emils eyddum við því 7 dögum og nóttum á spítalanum. Endalausar mælingar, blóðprufur, þvagleggir, línurit, myndatökur, ómanir og speglanir, lyf, grátur, hræðsla og bugun.“

Sonur Millu og Einars var mikið kveisubarn, með bakflæði, vara- og tunguhaft og líklegast mjólkuróþól upplýsir Milla.

Notaði yoga boltann svo mikið að hann sprakk

„Við þökkuðum fyrir það á hverjum degi að hann væri ekki alvarlega veikur, en vanlíðanin hjá honum var óskaplega mikil. Hann grét stanslaust, vildi hvorki vera í vagni, kerru né bílstól, vildi ekkert nema vera í fanginu á okkur og á hreyfingu. Ég notaði yoga boltann svo mikið að hann sprakk undan okkur.

Við höfum hitt um 10 lækna, farið með hann í allar mögulegar skoðanir og rannsóknir, prófað öll húsráð og allt sem hægt var að prófa. Eina svarið var “enginn veit hvers vegna börn fá kveisur, en það eldist af þeim.”

Í allt sumar beið ég eftir að hann hætti að gráta,“ segir Milla en andlega heilsan hennar var á niðurleið þar sem hún hafði aldrei verið jafn örvæntingafull eða einmanna.

Fæðingarþunglyndi og kvíði varð hluti af lífi Millu

Að sögn Millu er kveisan að rjátlast af syninum líkt og læknarnir sögðu að myndi gerast.

„Mín upplifun er svo sem flóknari en gengur og gerist og að mörgu leyti finnst mér erfitt að segja frá þessu öllu. Mér finnst ég opinbera mjög persónulega erfiðleika og áföll sem ég bjóst aldrei við að gera. Mér finnst erfitt að viðurkenna að fæðingarþunglyndi og kvíði hafi orðið hluti af mínu lífi. Ég hef hins vegar of oft bölvað því að enginn tali um þessar hliðar móðurhlutverksins til þess að segja ekki neitt sjálf. Við verðum að geta talað um þessa hluti og þannig hjálpast að,“ segir hún.

Færsluna má lesa í heild sinni hér eða neðan.