Þetta kemur fram á vefnum forskning.no þar sem segir að sóttvarnir og hreinlæti á COVID-tímum leiði mögulega til þess að flensutímabilið verði mildara en undanfarin ár. Vitaskuld veit enginn fyrir víst hver þróun árlegu inflúensunnar verður enda eru veirur óútreiknanlegar. Þess vegna er hvatt til þess að fólk sem hefur undirliggjandi sjúkdóma eða er viðkvæmt þiggi bólusetningu eins og áður.

Í Noregi voru 44 prósent heilbrigðisstarfsfólks bólusett gegn árlegri inflúensu í fyrra. Markmiðið er þó 75 prósent. Bent er á að á þessu ári sé sérstaklega mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk láti bólusetja sig til að forðast eigin veikindi og að bera smit í viðkvæma sjúklinga. Sömuleiðis er það afar óheppilegt á tíma heimsfaraldurs að missa fólk úr vinnu vegna flensu.

Norska landlæknisembættið hefur lýst yfir áhyggjum af því að einn af hverjum þremur heilbrigðisstarfsmönnum telji sig ekki þurfa bólusetningu gegn inflúensu. Hvatt er til þess að allir heilbrigðisstarfsmenn fái ókeypis bólusetningu á vinnustað og á vinnutíma. Mikilvægt er að vernda sjúklinga og aldraða.

Bólusetning gegn inflúensu hefur engin áhrif á útbreiðslu kórónaveirunnar. Bent er á að hægt sé að smitast af COVID og inflúensu samtímis sem væri mjög slæmt. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk í áhættuhópum fari í bólusetningu. Á hverju ári látast í kringum 900 manns af völdum inflúensunnar í Noregi. Margir verða mjög veikir og þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Inflúensan kemur verst niður á gamla fólkinu. Til að forðast veikindi er rétt að þiggja bólusetningu jafnvel þótt allra smitvarna sé gætt.

Venjulega stendur flensutímabilið frá nóvember fram í apríl. Mest er þó um veikindin í lok desember fram í mars.