Bergþóra Snæbjörnsdóttir er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna fyrir fyrstu skáldsögu sína Svínshöfuð. Bóksalar völdu bókina síðan bestu skáldsögu ársins. „Ég er afskaplega glöð og þakklát,“ segir Bergþóra, sem er þó ekki óvön góðum viðtökum því ljóðabók hennar Flórída, sem kom út árið 2017, var bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.

Skáldsagan Svínshöfuð spannar áratugi og gerist á eyju á Breiðafirði, í Kína og í Kópavogi. „Ég ætlaði að skrifa stutt og einfalt verk með afmörkuðu sögusviði,“ segir Bergþóra. „Ég var í Stykkishólmi sumarlangt þegar ég var að vinna söguna og þá fóru sögur úr eyjunum að leita á mig. Sagan varð svona, það bara gerðist sjálfkrafa og var á köflum yfirþyrmandi. Seinna áttaði ég mig á því að ég þurfti að fara svona langt aftur í fortíðina til að geta fjallað um samtímann, til þess að skýra gjörðir persónanna í nútímanum. Ekkert okkar er ósnortið af reynslu fyrri kynslóða.“

Í sporum eldri manns

Hún segist hafa lagst í mikla heimildavinnu við gerð skáldsögunnar. „Mér finnst svo mikilvægt að sýna efninu virðingu sem maður skrifar um af því maður er að eigna sér reynslu annarra. Það getur truflað fólk við lesturinn ef það rekst á hluti sem það veit að eru ekki réttir. Ég varð til dæmis að vera með það á hreinu hvað var notað til að beita með. Sjómenn sem læsu bókina myndu fussa og sveia færi ég rangt með það.“

Aðalpersóna bókarinnar er Svínshöfuð, eldri maður sem er alls ekki á allan hátt geðugur en gagnrýnendur eru sammála um að persónusköpun hans sé afar vel heppnuð. „Mér fannst mjög skemmtilegt að setja mig í spor eldri íslensks manns sem er nokkuð utangarðs í samfélaginu,“ segir Bergþóra. „Mér þykir mjög vænt um hann. Þetta er persóna sem er að hluta til í öllum en er um leið líka einhver sem allir þekkja, allavega einhverja útgáfu af honum. Ég er alin upp í sveit og hef hlustað á eldri menn tala mikið saman og þá gassalega. Ýmislegt í tali Svínshöfuðs kemur kannski þaðan.“

Er að vinna að skáldsögu

Bókin er mjög vel stíluð og Bergþóra segir að hún hafi lagt upp úr því. „Ég er fullkomunarsinni. Mér finnst erfitt að skila af mér texta sem ég hef ekki legið yfir. Mér fannst reyndar erfitt að skila þessum texta af mér. Ég hefði alveg getað haldið áfram að vinna bókina nokkur ár,“ segir hún. Aðspurð segist hún vera að leggja drög að næsta verkefni sem er skáldsaga.