Núna á meðan sviðslistaheimurinn liggur að mestu leyti niðri hef ég verið að lesa mikið fyrir Storytel en er líka á fullu í að talsetja. Núna í byrjun desember er ég svo á leiðinni norður til Akureyrar að starfa með Leikfélagi Akureyrar í annað sinn, en þau eru að fara að setja upp söngleikinn Benedikt Búálf. Ég er hrikalega spennt að geta loksins farið að leika á sviði aftur.“

Þórdís segist alltaf hafa reynt að hugsa vel um húðina og að heimsfaraldurinn hafi ekki haft mikil áhrif á rútínu hennar þegar þegar það kemur að notkun á snyrti- og húðvörum.

„Ég hef alltaf lagt mjög mikið upp úr því að hugsa vel um húðina mína og hef bara gert meira af því núna ef eitthvað er. Það er kannski helst það að maður er að mála sig sjaldnar þar sem maður er með fá tilefni til, en mér finnst það bara mikill kostur þar sem mér líður best ómálaðri eða lítið málaðri. Mig þyrstir hins vegar orðið í samkvæmi eins og sennilega flesta landsmenn en það er annað mál. Til að halda rútínu á þessum skrítnu tímum sem við lifum finnst mér mikilvægt að gera alltaf mína daglegu húðrútínu á morgnana og hreinsa húðina svo vel á kvöldin, hvort sem ég hef verið heima að vinna eða ekki. Þetta er líka kjörið tækifæri til að fara vel yfir skápana heima og henda út gömlum snyrtivörum,“ segir hún.

En hvað gerir hún til að gera vel við sig?

„Þegar ég er að eiga rólegt kvöld heima, sem eru jú öll kvöld á þessu ári, finnst mér æðislegt að fara í bað eða góða sturtu, skrúbba húðina og setja góða djúpnæringu í hárið. Nota síðan einhverja góða olíu á líkamann og setja á mig maska, annaðhvort sýrumaska, er til dæmis mjög hrifin af Peeling Solution frá The Ordinary eða einhvern góðan rakamaska frá Dr. Hauschka,“ svarar Þórdís.

Þórdís verður fyrir norðan að leika fram að 20. desember.

„Þannig að jólaundirbúningur verður í sögulegu lágmarki þetta árið. Ég fæ hins vegar gott jólafrí og hlakka mikið til að verja tímanum með stráknum mínum.“

Marc Inbane Perle de soleil brúnkudropar

Enn önnur snilldin frá Marc Inbane. Ég blanda 3-4 dropum af þessu í rakakremið mitt þegar mig vantar smá lit og ljóma. Sérstaklega nauðsynlegt yfir þessa dimmu mánuði hér á Íslandi.

Oi Oil

Davines er mitt allra uppáhalds hárvörumerki. Flestar hárvörurnar mínar eru frá þeim og ég hef ekki enn þá prófað vöru frá Davines sem ég elska ekki. Ég nota þessa olíu á hverjum degi. Olían mýkir hárið og gefur því gljáa. Ég er með þykkt og mikið hár sem á það til að flækjast og verða úfið og þessi olía verður alltaf að vera til inní í skáp hjá mér. Svo er líka guðdómleg lykt af henni sem skemmir ekki fyrir.

Mimitika sólarvörn

Það eru nokkur ár síðan sólarvörn varð partur af daglegri húðumhirðu minni og það er sennilega eitt best geymda leyndarmálið þegar kemur að öldrun húðar. Ég hef prufað margar sólarvarnir í gegnum árin en þessi verður alltaf í uppáhaldi. Ég nota sólarvörn alla daga, hvort sem það er sól eða ekki til að vernda húðina gegn UVA- og UVB-geislum. Það er ekki síður mikilvægt að nota sólarvörn á veturna.

Dr. Hauschka Translucent Bronzing Tint

Eftir að ég fór að hugsa betur um húðina mína hætti ég að nota meik, ég mála mig ekki dagsdaglega en þegar ég vil setja eitthvað létt á mig nota ég hyljarann minn frá Dr. Hauschka og set svo þetta bronzing tint yfir. Það má líka blanda því við dagkrem og það gefur húðinni fallegan ljóma. Fyrir þær sem nota farða er líka upplagt að blanda þessu út í farðann og fá smá sólarkysst útlit. Ég er algjörlega dolfallin yfir þessu merki og þeirra hugmyndafræði um hreinar lífrænar snyrtivörur, formúlurnar eru stútfullar af andoxunarríkum steinefnum og vítamínum.

Dr. Hauschka Rose Day Cream

Þetta er mitt uppáhaldsdagkrem á veturna. Á vorin og sumrin nota ég Melissa Day Cream frá sama merki sem er örlítið léttara. Þetta er mjög nærandi og róandi dagkrem sem verndar húðina og það er æðislegt að nota þegar það er farið að kólna mikið og húðin er extra viðkvæm. Ég veit ekki hvað ég hef farið í gegnum margar túpur af þessu.

Marc Inbane brúnkufroða

Ég hef notað Marc Inbane brúnkuvörurnar í mörg ár. Það er kominn ansi langur tími síðan ég hætti að fara í ljós enda gífurlega mikið úrval til af góðum brúnkuvörum sem fara mikið betur með húðina. Marc Inbane er besta brúnkan að mínu mati og gefur ofboðslega fallegan lit, ég á alltaf til bæði froðuna og spreyið. Froðan þornar hratt og það er auðvelt að bera hana á.

Tan Organic sólarpúður

Verandi manneskja sem forðast það að láta sólina skína mikið framan í mig finnst mér mjög mikilvægt að nota góðar vörur sem fríska upp á mann og gefa manni þetta sólakyssta „lúkk”. Ég er alltaf með sólarpúður í snyrtitöskunni minni og þetta er það allra besta sem ég hef prófað. Það er tvískipt, helmingurinn er ljómapúður og liturinn er guðdómlegur.

Skin Regimen 15.0 vitamin C booster

Ég hefði aldrei trúað því hvað C-vítamín serum geta gert mikið fyrir húðina. C-vítamín er mjög öflugt andoxunarefni sem verndar húðfrumurnar og hægir á öldrunarmerkjum. C-vítamín er það innihaldsefni í húðvörum sem hefur hvað flestar rannsóknir á bak við sig sem sanna virkni þess svo þetta er eitt eftirsóttasta innihaldsefnið í húðvörum í dag. Þetta dásamlega serum jafnar húðlit, áferð húðar og dregur úr fínum línum.