„Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum, einnig þekktur sem Kvennasáttmálinn, er grundvallaryfirlýsing sem fylgt er eftir með 16 greinum sem varpa ljósi á réttindi kvenna, eins og til dæmis réttinn til menntunar, réttinn til vinnu og réttinn yfir eigin líkama og heilsu,“ segir Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands. „Sáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1979 og miðar að því að útrýma hvers konar mismunun gagnvart konum og að konur nái fullum réttindum og frelsi á jafnréttisgrundvelli við karla. Ísland undirritaði sáttmálann á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 1980, en hann var fullgiltur af Alþingi árið 1985.“

Kynjasjónarmið mikilvæg í allri löggjöf

„Þrátt fyrir að við séum með nokkuð sterk jafnréttislög á Íslandi, þá hefur samningurinn ekki verið að fullu innleiddur í íslenska löggjöf. Eins og staðan er núna, þá eiga dómarar að horfa á íslensk lög með alþjóðlegar skuldbindingar eins og til dæmis Kvennasáttmálann til hliðsjónar og fara eftir því sem stendur þar þegar mál fara fyrir rétt, en því miður þá sjáum við ítrekað að alþjóðlegu skuldbindingarnar virðast gleymast,“ útskýrir Rut. „Eins er ekki nægilegt að vera með sterk jafnréttislög sem standa ein og sér, heldur þarf að innleiða sáttmálann og þar með kynjasjónarmið í alla löggjöf, eins og til dæmis lög um atvinnurekstur, heilbrigðismál og svo framvegis.

Með því að innleiða Kvennasáttmálann í íslensk lög sýnum við ekki bara í verki að við virðum alþjóðaskuldbindingar, heldur líka að við tökum jafnrétti kynjanna alvarlega og styðjum við jafnrétti á heimsmælikvarða, því það er mikilvægt að það sé samræmi í lögum um jafnrétti á milli landa,“ segir Rut. „Því fleiri lönd sem innleiða sáttmálann, því nær erum við að ná jafnrétti.

Það er erfitt að segja hvers vegna sáttmálinn hefur ekki verið innleiddur í íslensk lög, en það er allavega ekki vegna þess að það hafi ekki verið lagt til. Kvennasamtök, eins og þau sem skrifuðu skuggaskýrsluna til nefndarinnar sem starfar á grundvelli Kvennasáttmálans, hafa ítrekað lagt til við stjórnvöld að sáttmálinn verði lögleiddur,“ bætir Rut við.

Samstaða er alltaf sterkust

„Í heildina litið hefur íslenska ríkið staðið sig vel við að fylgja Kvennasáttmálunum og við stöndum öðrum þjóðum framar þegar kemur að jafnrétti,“ segir Rut. „En vissulega má gera betur, því við höfum ekki enn náð algjöru jafnrétti hér á landi.

Við bendum á hvað megi bæta í skýrslunni okkar, en frjálsum félagasamtökum bauðst að skila inn svokallaðri „skuggaskýrslu“, sem er viðbót við skýrslu stjórnvalda sem var gefin út síðastliðinn nóvember, og benda á hvað betur má fara í starfi ríkisins til að útrýma mismunun gagnvart konum,“ segir Rut. „Ástæðan fyrir því að Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Öfgar, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands skiluðu slíkri skýrslu inn sameiginlega er sú að samstaða er alltaf sterkust og það er mikilvægt að við endurspeglum sem flestar hliðar samfélagsins. Svo við hjá Kvenréttindafélaginu sendum beiðni á þó nokkur félagasamtök á Íslandi og buðum þeim að vera með okkur í skýrsluskrifunum.“

Ýmislegt sem þarf enn að bæta

„Auk þess að innleiða Kvennasáttmálann í íslenska löggjöf þá þarf einnig að auka fjármagn til málaflokksins, en það er meðal annars skortur á fjármagni til fæðingarorlofssjóðs, jafnréttisstofu, félagasamtaka og deild lögreglunnar sem sinnir kynferðisbrotamálum,“ segir Rut. „Enn fremur hvetjum við stjórnvöld til að gera kynjafræði að skyldufagi á öllum skólastigum og að gera umbætur á fræðslu og forvörnum gagnvart stafrænu kynferðisofbeldi. Svo hvetjum við stjórnvöld líka til að skylda stjórnmálaflokka til þess að vera með kynjakvóta og finna leiðir til þess að auka hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu.

Við vonumst til þess að íslensk stjórnvöld taki okkar tillögur til sín og geri úrbætur á þeim vanköntum sem við bendum á. Framkvæmd Íslands á sáttmálanum verður tekin fyrir í febrúar á næsta ári og því hefur ríkið enn tækifæri til þess að gera betur áður en þau sitja fyrir svörum í Genf,“ segir Rut.

Sérstök nefnd fylgir sáttmálanum eftir

„Sérstök nefnd var sett á laggir til að fylgja Kvennasáttmálanum eftir með 23 sjálfstæðum sérfræðingum sem hafa það hlutverk að fylgjast með framgangi mála hjá hverri einustu aðildarþjóð SÞ. Fulltrúar ríkja eru kallaðir fyrir með nokkurra ára millibili og þeir spurðir spjörunum úr um framkvæmd einstakra greina sáttmálans,“ útskýrir Rut. „Einnig munu fulltrúar aðildarríkjanna sitja fundinn til þess að veita hvert öðru aðhald og passa að aðrar þjóðir virði mannréttindi. Væntanlega verða fulltrúar Íslands frá forsætisráðuneytinu, þar sem jafnréttismál heyra þar undir. Einnig er líklegt að fulltrúar annarra ráðuneyta sitji fundinn.

Næsta skref er undirbúningsfundur nefndar Kvennasáttmálans sem fer fram 4. júlí, en þar mun fulltrúi samtakanna sem stóðu fyrir skuggaskýrslunni ávarpa nefndina og koma fleiri punktum að en við komum í skýrsluna, sem hafði takmarkaðan orðafjölda,“ segir Rut að lokum.