Starfið er oft erfitt en líka ofsalega gefandi. Fólk kemur til okkar með áhyggjur, sorg og áföll enda er viðfangsefnið þungbært,“ segir Halldóra Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis (KAON).

Félagið er aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands og var stofnað í nóvember árið 1952. Það opnaði leitarstöð á Akureyri í ágúst 1969 og fyrstu móttöku og skrifstofur félagsins á níunda áratugnum.

„Allir sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra geta sótt ráðgjöf og stuðning til okkar, ásamt því að taka þátt í skemmtilegu félagsstarfi. Ætli það sé ekki vegna þess að ég er textílkennari að mér finnst skipta miklu máli að vera með handverk sem bæði kynin geta tekið þátt í,“ segir Halldóra í öflugu starfi KAON sem er með aðstöðu á Glerárgötu 34.

„Það skiptir miklu máli fyrir okkur að vera sýnileg í samfélaginu. Flestir vilja þó ekki vita af okkur fyrr en þeir greinast en við viljum helst að allir viti af okkur og nýti sér þjónustuna því hingað er gott að koma til að tala út, fá stuðning og lausn hinna ýmsu mála,“ segir Halldóra sem starfar með þremur öðrum ráðgjöfum í Glerárgötunni þar sem er opið fjóra daga í viku frá klukkan 10 til 16.

„Starfið hjá okkur er alltaf að aukast og hefur vaxið hratt síðastliðin þrjú ár. Við sjáum nú með haustinu að fólk er að koma um leið og það, eða aðstandandi þess, greinist í stað þess að bíða með að klára fyrst meðferð og koma svo. Ég held að það sé vegna okkar góða samstarfs við heilsugæsluna, sjúkrahúsið og lækna sem benda sjúklingum á að fara til okkar sem fyrst. Það er mikilvægt að koma strax því það erfiðasta í sjúkdómsferlinu er öll biðin sem tekur við, bið eftir niðurstöðum, bið eftir meðferð og svo framvegis. Þá skiptir máli að geta komið í KAON til að fá stuðning og ráðgjöf og eitthvað skemmtilegt að fást við til að dreifa huganum og stytta biðina,“ segir Halldóra sem situr einnig í stjórn Krabbameinsfélags Íslands.

„Við finnum fyrir þörfinni fyrir KAON og bregðumst við henni. Batahorfur hafa sem betur fer batnað með margar tegundir krabbameins og nú eru mjög margir á lífi sem greinst hafa en glíma við ýmsa fylgikvilla eftir veikindin. Við bjóðum því upp á aðstoð og endurhæfingu, sundleikfimi, leikfimi í líkamsræktarstöðvum og jóga einu sinni í viku. Það er nauðsynlegt að hlúa að bæði líkama og sál og skiptir miklu máli þegar kemur að fylgikvillum meðferða og sjúkdómsins því við viljum hjálpa fólki að komast aftur út í lífið,“ segir Halldóra.

Aðild að Krabbameinsfélagi Íslands eiga 22 svæðafélög og 7 stuðningshópar. Aðildarfélögin eru sjálfstæð og starfa eftir eigin félagslögum.

Nánari upplýsingar um aðildarfélögin á krabb.is.