Það skiptir máli að gera vel við starfsfólkið sitt en það skiptir líka máli að það sé ekki bara bundið við jólin eða eitthvað svoleiðis heldur að það sé unnið að því allt árið að gera fólk ánægt,“ segir Steingrímur Sigurgeirsson, ráðgjafi í stjórnun og stefnumótun hjá ráðgjafarfyrirtækinu Capacent.

„Eitt af því sem við gerum sem ráðgjafar er að vinna með fyrirtækjum og stofnunum að því hvernig er hægt að gera vinnustaði betri og oft erum við að horfa á hluti eins og vinnustaðarmenningu,“ segir Steingrímur. „Auðvitað reynum við líka að hafa hlutina góða hjá okkur því það er svo margt annað en bara laun sem skiptir máli þegar kemur að því hvort fólk sé ánægt í vinnunni og líði vel,“ bætir hann við.

Mikið er lagt upp úr ánægju starfsfólks innan fyrirtækisins og segir Steingrímur það mikilvægt fyrir starfsandann að starfsfólkið hittist utan vinnu og eigi góða stund. „Við leggjum mikið upp úr þáttum eins og að þjappa hópnum saman því að þannig kynnumst við betur og samskiptin verða auðveldari,“ segir Steingrímur.

„En svo geta líka þættir eins og gjafir til starfsfólks verið mikilvægir þegar kemur að vinnustaðarmenningu,“ segir hann. „Til dæmis ef einhver á stórafmæli og í kringum jólin er mikilvægt að gefa starfsfólkinu gjafir en það skiptir þó eiginlega meira máli að passa upp á að þetta sé gert heldur en að þetta séu einhverjar risagjafir,“ bætir Steingrímur við.

„Ekki þó þannig að þetta sé nánasarlegt en það sem skiptir líka miklu máli er þessi heildarmynd. Að það sé ekki bara einhver glaðningur í kringum í jólin heldur að alla daga ársins séum við að hugsa um það hvernig við getum haft vinnustaðinn góðan og haft góða menningu í hópnum,“ segir hann. Steingrímur segir að það geti verið vandasamt að velja gjafir fyrir þann fjölbreytta starfsmannahóp sem starfar hjá Capacent en að reynt sé að vanda valið á hverju ári. „Það þarf að klóra sér í hausnum á hverju ári yfir því hvað sé skynsamlegast,“ segir hann og hlær.

„Við reynum að velja gjafir sem eru hagnýtar og ýmislegt hefur orðið fyrir valinu í gegnum tíðina. Til dæmis útivistarfatnaður, þráðlaus hátalari og oft höfum við verið með hálfgerðan bókamarkað,“ segir hann.

„Það hefur lukkast rosalega vel því það getur verið erfitt að velja fyrir fólk með ólíkan áhuga og smekk. Þá erum við með helstu jólabækurnar og fólk getur valið sér það sem það langar í,“ segir Steingrímur.